Caterham ræður Kobayashi og Ericsson

Kobayashisnýr aftur í formúlu-1.
Kobayashisnýr aftur í formúlu-1. mbl.is/afp

Caterham hefur alveg endurnýjað ökumannaskipan sína og ráðið Japanann Kamui Kobayashi og Svíann Marcus Ericsson til að keppa fyrir sig í ár. Þar með er ekkert sæti laust lengur hjá keppnisliðum formúlunnar.

Kobayashi er enginn nýgræðingur, keppti á sínum tíma fyrir Toyota og síðar Sauber, en hann snýr aftur til keppni í formúlunni eftir ársveru í sportbílakeppni fyrir Ferrari.

„Það er frábær tilfinning að vera kominn aftur í formúlu-1 sem keppnismaður og ég er mjög ánægður með Caterhamliðið,“ sagði japanski ökumaðurinn í tilefni ráðningarinnar. „Gegnum allar okkar viðræður hefur metnaðurinn hjá liðinu haft mikil og góð áhrif á mig,“ bætti hann við.

Ericsson er nýliði en hann hefur undanfarin fjögur ár keppt í GP2-formúlunni. Hann er fyrsti sænski ökumaðurinn til að keppa í formúlu-1 frá því Stefan Johansson hætti 1991. Ericsson er 23 ára og sinnti reynsluakstri fyrir Brawn-liðið árið 2009 en það ár varð hann meistari í japönsku formúlu-3 mótaröðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert