Hamilton aftur fljótastur

Felipe Massa hjá Williams fer hér fremstur í Búdapest en …
Felipe Massa hjá Williams fer hér fremstur í Búdapest en hann slapp vel frá snarsnúning á seinni æfingunni. mbl.is/afp

Lewis Hamilton ók einnig hraðast á seinni æfingu dagsins í Búdapest, eins og á þeirri fyrri. Besta hringinn lagði hann að baki á 1:24,482 mínútum og var 0,238 sekúndum fljótari í förum en liðsfélaginn Nico Rosberg.

Hamilton var eiginlega alla æfinguna með besta tímann, bæði meðan ökumenn brúkuðu harðari dekkin fyrri hlutann og síðar einnig er þeir settu mýkri gerðina undir bílana.

Sebastian Vettel hjá Red Bull setti þriðja besta tímann þrátt fyrir að eiga ítrekað í erfiðleikum með að hemja fák sinn. Besti hringur hans var rúmlega hálfri sekúndu lakari en Mercedesmanna.

Fernando Alonso og Kimi Räikkönen hjá Ferrari settu fjórða og sjötta besta tímann en milli þeirra varð Kevin Magnussen hjá McLaren.

Daniel Ricciardo hjá Red Bull varð sjöundi, hundraðshluta úr sekúndu á undan Valtteri Bottas hjá Williams.

Fyrsta tuginn fylltu svo Jenson Button hjá McLaren og Felipe Massa, sem slapp vel frá svaka snarsnúningi í beygjuhlykknum sem markar sjöttu og sjöundu beygju hringsins.

Lewis Hamilton leggur af stað í aksturslotu á seinni æfingunni …
Lewis Hamilton leggur af stað í aksturslotu á seinni æfingunni í Búdapest í dag. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert