Kobayashi keppir ekki í Spa

Kamui Kobayashi veltir framtíðinni fyrir sér þessa dagana.
Kamui Kobayashi veltir framtíðinni fyrir sér þessa dagana. mbl.is/afp

Kamui Kobayashi keppir ekki fyrir Caterhamliðið í belgíska kappakstrinum um helgina. Nýi eigendur liðsins ætla breyta til og leyfa þýska ökumanninum Andre Lotterer að spreyta sig í staðinn.

Kobayashi mun því nýta tímann um helgina og velta framtíðinni fyrir sér en þessi vinsæli japanski ökumaður er áfram samningsbundinn Caterham og gæti því svo farið að hann snúi aftur til starfa þar að lokinni keppni í Spa.

Lotterer hefur ekki áður keppt í formúlu-1 og þreytir því frumraun sína sem 32 ára gamall nýliði. Hann er þó enginn nýgræðingur á kappakstursbrautum því síðast í júní var hann einn þriggja ökumanna Audi sem óku til sigurs í sólarhringskappakstrinum fræga í Le Mans í Frakklandi.

„Það er leitt að keppa ekki í Spa, ég bið unnendur mína alla afláts en svona eru akstursíþróttirnar þótt ég ekki vildi að þær væru þannig,“ segir Kobayashi á twittersíðu sinni sem rúmlega 150.000 manns eru áskrifendur að.

Meðal þeirra sem gagnrýna ákvörðun Caterham er fráfarandi liðs- og tæknistjóri liðsins,  Mike Gascoyne. „Hann var eina von liðsins um að endurheimta tíunda sætið í liðakeppninni en ákvörðunin er dæmigerð fyrir hina nýju eigendur liðsins,“ tístar hann á Twitter.

Andre Lotterer.
Andre Lotterer.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert