Alonso fljótastur á fyrstu æfingu

Fernando Alonso á leið til efsta sætis á fyrstu æfingunni …
Fernando Alonso á leið til efsta sætis á fyrstu æfingunni í Singapúr í morgun. mbl.is/afp

Fernando Alonso hjá Ferrari réði ferðinni á fyrstu æfingu keppnishelgarinnar í Singapúr sem var að ljúka í þessu. Sló hann ökumönnum Mercedes við.

Næst besta hringinn átti Lewis Hamilton og Nico Rosberg þann þriðja besta. Milli þeirra voru aðeins 27 þúsundustu úr sekúndu en Alonso var 122 þúsundustu á undan Hamilton, eða rétt rúmleag 0,1 úr sekúndu.

Í fjórða og fimmta sæti urðu Red Bull félagarnir Sebastian Vettel og Daniel Ricciardo og Jean-Eric Vernge hjá Toro Rosso sjötti. Mun meira munaði á þeim og fremstu mönnum því Vettel í fjórða sæti var 0,8 sekúndum lengur með hringinn en Alonso.

Í sætum sjö til tíu urðu - í þessari röð - Kimi Räikkönen hjá Ferrari, Jenson Button hjá McLaren, Daniil Kvyat hjá Toro Rosso og Sergio Perez hjá Force India.

Kevin Magnussen hjá McLaren setti 11. besta hringinn en athygli vekur, að Williamsbílarnir urðu í aðeins 13. (Massa) og 15. sæti (Bottas).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert