Sauber ræður Ericsson

Marcus Ericsson.
Marcus Ericsson. mbl.is/afp

Sauberliðið staðfesti í morgun að það hefði ráðið sænska ökumanninn Marcus Ericsson sem keppnisþór á næsta ári.

Þetta þýðir að annað hvort Adrian Sutil eða  Esteban Gutierrez missir vinnuna, en allt er í óvissu með það. Reyndar fara fregnir af því að Sauber vilji veita varaökumanninum Giedo van der Garde stöðuhækkun og gera hann einnig að keppnisþór 2015. Það þýddi að báðir myndu missa sæti sín, Sutil og Gutierrez.

 Ericsson er á sinni fyrstu keppnistíð en hann hefur ekið fyrir Caterham. Framtíð þess er í óvissu þar sem liðið er nú í höndum skiptaráðanda, að því er virðist vegna vanefnda fjárfesta sem sögðust hafa keypt liðið í sumar. Stóðu þeir ekki í skilum og fengu því aldrei hlutabréf í liðinu afhent.

„Eftir mjög róstusama viku hefur mér verið færð besta fyrirfram jólagjöfin sem hugsast gat,“ segir Ericsson vegna ráðningarinnar. „Sauberliðið hefur sett traust sitt á mig fyrir næsta ár sem eykur mér stolt. Það verður áskorun og ég mun leggja mig allan fram um að þróast og læra sem ökumaður. Og vera hluti af þeirri áskorun að  gera Sauberliðið öflugra.

Monisha Kaltenborn liðsstjóri Sauber segir liðsmenn sannfærða um að með ráðningu Ericsson fái það nýja örvun. Hún sagði að síðar yrði tilkynnt hver yrði liðsfélagi hans.

Marcus Ericsson á ferð á Caterhambílnum í Singapúr.
Marcus Ericsson á ferð á Caterhambílnum í Singapúr. mbl.is/afp
Marcus Ericsson á ferð á Caterhambílnum í rússneska kappakstrinum í …
Marcus Ericsson á ferð á Caterhambílnum í rússneska kappakstrinum í Sotsjí. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert