Varamenn Liverpool komu til bjargar

Cody Gakpo fagnar sigurmarki sínu ásamt Darwini Núnez sem heldur …
Cody Gakpo fagnar sigurmarki sínu ásamt Darwini Núnez sem heldur utan um hann. AFP/Paul Ellis

Liverpool vann Fulham, 2:1, í fyrri leik liðanna í undanúr­slit­um enska deilda­bik­ars­ins í fót­bolta á An­field í Li­verpool í kvöld. 

Brasilíumaðurinn Willian kom Fulham yfir á 19. mínútu í tíðindalitlum hálfleik. Þá fékk hann boltann frá samlanda sínum Andreas Pereira sem hafði unnið hann af Virgil van Dijk. Willian kom svo boltanum í netið framhjá Caoimhín Kelleher, 1:0. 

Liverpool-liðið gat lítið sem ekkert það sem af lifði fyrri hálfleiks og fór Fulham 1:0-yfir til búningsklefa. 

Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, gerði tvær breytingar snemma í síðari hálfleik. Darwin Núnez og Cody Gakpo komu inn fyrir Harvey Elliot og Ryan Gravenberch. 

Varamennirnir áttu eftir að láta til sín taka en á 69. mínútu lagði Núnez upp jöfnunarmark Curtis Jones. Þá átti Jones skot sem fór af varnarmanni og í fjærhornið efra, allt jafnt, 1:1. 

Tveimur mínútum síðar kom Gakpo Liverpool yfir eftir sendingu þvert fyrir frá Núnez og endurkoman fullkomnuð. 

Liverpool fékk mun fleiri færi það sem eftir lifði leiks en inn vildi boltinn ekki. Liverpool-liðið fer því með eins marks forystu til London þar sem liðin eigast við á Craven Cottage eftir nákvæmlega viku. 

Andreas Pereira og Virgil van Dijk í leiknum í kvöld.
Andreas Pereira og Virgil van Dijk í leiknum í kvöld. AFP/Paul Ellis
Liverpool 2:1 Fulham opna loka
90. mín. Fjórum mínútum bætt við leikinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert