Geir vildi samstöðu innan FIFA

Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og Sepp Blatter forseti FIFA.
Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og Sepp Blatter forseti FIFA. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert varð úr því að fulltrúar knattspyrnusambanda innan Evrópu kæmu sér saman um kandídat til að bjóða sig fram gegn Joseph Blatter, sitjandi forseta Alþjóða knattspyrnusambandins, FIFA, en rætt var um hugsanlegt mótframboð sem Evrópuríki kæmu sér saman um, eftir að Michel Platini forseti Evrópska knattspyrnusambandsins, UEFA tilkynnti að hann gæfi áfram kost á sér sem forseti UEFA og ætlaði sér ekki að fara fram gegn Blatter innan FIFA.

Í frétt á vef breska dagblaðsins Daily Mail í gær er því haldið fram að andstaða Íslands og Finnlands hafi verið hvað mest við að finna sameiginlegan frambjóðanda gegn Blatter innan FIFA.

RÚV fjallar um málið í dag og hefur þar eftir Geir Þorsteinssyni formanni Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ að það sé fráleitt að hann hafi komið í veg fyrir að Evrópa kæmi sér saman um frambjóðanda gegn Blatter. Geir hafi hins vegar staðið upp á þingi UEFA í Mónakó og hvatt til samstöðu innan FIFA.

„Við höfum alltaf stutt Michel heilshugar í því,“ segir Geir við RÚV um framboðið sem Platini hugði á í forsetakjöri FIFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert