Viking hafnar þriðja boðinu í Sverri

Sverrir Ingi Ingason á æfingu með 21-árs landsliði Íslands.
Sverrir Ingi Ingason á æfingu með 21-árs landsliði Íslands. mbl.is/Golli

Norska knattspyrnufélagið Viking hefur hafnað tilboði í miðvörðinn Sverri Inga Ingason í þriðja sinn, samkvæmt heimildum dagblaðsins Stavanger Aftenblad.

Áður hefur komið fram að Ólafur H. Kristjánsson, þjálfari Nordsjælland í Danmörku, hafi reynt að fá sinn gamla lærisvein úr Breiðabliki en verið hafnað af forráðamönnum norska félagsins.

Arne Larsen Ökland, formaður Viking, staðfestir að Nordsjælland hafi reynt að fá Sverri en vildi ekkert segja um málið að öðru leyti. 

Aftenbladet segir að fyrst hafi Nordsjælland boðið 3-4 milljónir norskra króna, og aftur nálægt 5 milljónum, en báðum boðum hafi verið hafnað. Nú hafi borist enn hærra boð frá félagi utan Norðurlanda en forráðamenn Viking hafi enn og aftur neitað. Blaðið kveðst hafa heimildir fyrir því að Sverrir vilji reyna sig í sterkari deild. Í frétt á Fótbolti.net segir að umrætt félag sé Lokeren í Belgíu.

Fram kemur að Viking hafi greitt Breiðabliki eina milljón norskra króna, um 17 milljónir íslenskra króna, fyrir Sverri þegar hann kom til félagsins fyrir ári síðan. Sverrir lék 29 af 30 leikjum Viking í úrvalsdeildinni á síðasta ári og var aldrei skipt af velli.

Sverrir er 21 árs gamall og var fyrirliði 21-árs landsliðsins í síðustu undankeppni EM. Hann lék á dögunum sinn annan A-landsleik þegar Ísland vann Kanada, 2:1, í Orlando.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert