Kasakar vilja sækja um HM 2026

Astana Arena í Astana, höfuðborg Kasakstan.
Astana Arena í Astana, höfuðborg Kasakstan. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Knattspyrnusamband Kasakstan hefur mikinn hug á að sækja um að fá að halda heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu árið 2026.

Þetta var haft eftir Yerlan Kozhagapanov, formanni knattspyrnusambands landsins, í rússneska íþróttadagblaðinu Sport Express í dag.

Kasaska landsliðið fór eftir ósigurinn gegn Íslendingum beina leið til Moskvu þar sem það mætir Rússum í vináttulandsleik í dag. 

„Við erum að ræða málin við ríkisstjórn landsins þessa dagana og meta okkar möguleika," sagði Kozhagapanov, en hann er jafnframt aðstoðarborgarstjóri Astana, höfuðborgar Kasakstan.

Íslenska landsliðið lék í stærsta íþróttamannvirki landsins, Astana Arena, á laugardaginn en gert er ráð fyrir mikilli uppbyggingu á knattspyrnuvöllum Kasakstan á næstu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert