„Þeir mæta brjálaðir til leiks“

Hannes Þór Halldórsson.
Hannes Þór Halldórsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það má fastlega reikna með því að Hannes Þór Halldórsson markvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu hafi nóg að gera á milli stanganna þegar Ísland etur kappi við Holland í undankeppni Evrópumótsins á Amsterdam Arena vellinum á fimmtudagskvöldið.

Hannes hefur aðeins þurft að hirða boltann þrisvar sinnum úr netinu hjá sér í sex leikjum Íslendinga í undankeppninni og hann hélt marki sínu hreinu í fyrri leiknum gegn Hollendingum á Laugardalsvellinum.

En við hvernig hollensku liði býst Hannes við að mæta?

,,Ég reikna með þeim beittari og ákveðnari. Þeir þekkja okkur núna, eru undir mikilli pressu, spila á heimavelli og eru eiginlega með bakið upp að vegg. Þeir munu því pottþétt gera áhlaup á okkur fyrstu 20-25 mínúturnar í leiknum og mæta brjálaðir til leiks. Þetta er eitthvað sem við vitum og verðum undirbúnir fyrir. Við verðum að standa þetta af okkur og vinna okkur smátt og smátt inn í leikinn,“ sagði Hannes Þór Halldórsson við mbl.is í dag.

Þið hafið verið spurðir mikið af því hvort þið getið sætt ykkur við jafntefli í leiknum. Yrðu það ekki bara fín úrslit?

,,Maður fer aldrei í leiki til að spila upp á jafntefli. Við munum reyna að nýta möguleikana sem gefast í leiknum til að vinna hann en ef þú myndir spyrja mig eftir leikinn hvort ég hefði verið sáttur við jafnteflið þá myndi ég örugglega segja já. Vegna stöðunnar í riðlinum væri sterkt að taka stig,“ sagði Hannes Þór.

Hannes hafði sem kunnugt er vistaskipti í sumar. Hann yfirgaf norska B-deildarliðið Sandnes Ulf og er kominn í hollensku úrvalsdeildina þar sem hann spilar með Nijmegen eins og Kristján Gauti Emilsson. Spurður hvort hann sé sáttur hjá nýja liðinu sagði Hannes;

,,Ég er rosalega ánægður. Þetta er frábær deild. Allir leikir eru stórleikir og það er fullt af áhorfendum á öllum leikjum. Ég held að ég geti þróast aðeins sem markvörður og geti bætt mig. Nijmegen er flottur klúbbur og bæði mér og fjölskyldunni líður vel þar sem við erum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert