Markaveisla í Meistaradeildinni

Það er óhætt að segja að mörkunum hafi rignt þegar fimmta umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu hélt áfram með sex leikjum í kvöld. Barcelona og Bayern München fóru hreint á kostum og mörkunum hreinlega rigndi. Alls voru skoruð 23 mörk í þessum sex leikjum sem var að ljúka.

Börsungar voru þegar öruggir áfram í sextán liða úrslitin úr E-riðli eftir jafntefli BATE og Leverkusen fyrr í dag. Þeir létu það hins vegar ekkert stöðva sig þegar Roma kom í heimsókn. Barcelona hreinlega valtaði yfir andstæðinginn og fór með 6:1 sigur af hólmi. Þeir settu með því nýtt markamet í Evrópumótunum í knattspyrnu, eða gerðu það raunar með fimmta markinu.

Lionel Messi kom aftur inn í byrjunarliðið eftir tveggja mánaða fjarveru, en hann skoraði tvö mörk. Það gerði Luis Suárez líka og þeir Adriano og Gerard Piqué skoruðu eitt mark hvor, auk þess sem Roma klúðraði vítaspyrnu áður en Edin Dzeko skoraði sárabótarmark.

Í F-riðli var Alfreð Finnbogason allan tímann á bekknum þegar Olympiacos var tekið í kennslustund af Bayern München. Bæjarar komust í 3:0 eftir tuttugu mínútur og þrátt fyrir að missa mann af velli kláruðu þeir leikinn 4:0. Douglas Costa, Robert Lewandowski, Thomas Müller og Kingsley Coman skoruðu mörk Bayern, sem komst áfram úr riðlinum eftir sigurinn.

Í hinum leik riðilsins vann Arsenal öruggan sigur á Dinamo Zagreb þar sem Alexis Sáncez skoraði tvö og lagði upp eitt fyrir Mesut Özil í 3:0 sigri, en Arsenal  er nú með sex stig, þremur á eftir Olympiacos, en þau mætast í síðustu umferðinni.

Af öðrum úrslitum má nefna að Chelsea jafnaði Porto að stigum á toppi H-riðils með öruggum sigri á Maccabi Tel Aviv, en Porto tapaði heima fyrir Dynamo Kiev. Þá vann Gent frækinn útisigur á Lyon í H-riðli.

Fylgst var með gangi mála í öllum leikjum kvöldsins hér á mbl.is.

Barcelona – Roma 6:1
Arsenal – Dinamo Zagreb 3:0
Bayern München – Olympiacos 4:0
Porto – Dynamo Kiev 0:2
Maccabi Tel Aviv – Chelsea 0:4
Lyon – Gent 1:2

21.39 Leikjunum er lokið. Og þvílík markaveisla!

21.38 Mark í Frakklandi! Lyon - Gent 1:2. Belgarnir vinna heldur betur frækinn útisigur á Lyon, þar sem Kalifa Coulibaly tryggir þeim sigur í uppbótartíma!

21.35 Mark í Barcelona! Barcelona - Roma 6:1. Jæja, Edin Dzeko skorar sárabótarmark í blálokin og um leið er flautað af þar.

21.34 Mark í Ísrael! Maccabi Tel Aviv - Chelsea 0:4. Þeir ensku klára þetta endanlega, það gerir Kurt Zouma á fyrstu mínútu uppbótartíma.

21:25 Roma klúðrar víti! Barcelona – Roma 6:0. Nú fengu Rómverjar vítaspyrnu þegar Edin Dzeko var felldur. Hann fór sjálfur á punktinn en Marc Andre Ter Stegen varði spyrnu hans örugglega!

20.20 Mark í Barcelona! Barcelona – Roma 6:0. Já, þetta er ekkert grín. Sex – núll! Neymar steig á vítapunktinn en spyrna hans var varin, en Adriano fylgdi á eftir og skoraði.

21.19 Mark í Ísrael! Maccabi Tel Aviv – Chelsea 0:3. Þeir ensku eru að ganga frá þessu, Oscar skorar þriðja mark þeirra.

21.15 Mark í Ísrael! Maccabi Tel Aviv – Chelsea 0:2. Ensku meistararnir virðast vera að klára leikinn endanlega, en það er Willian sem smellir boltanum í netið beint úr aukaspyrnu. Minnum á að Ísraelarnir eru manni færri.

21.14 Mark í München! Bayern München – Olympiacos 4:0. Það skiptir engu máli þó þeir séu manni færri, Bæjarar bæta við marki. Það er hinn franski Kingsley Coman sem það gerir eftir undirbúning frá Thomas Müller.

21.09 Mark í London! Arsenal – Dinamo Zagreb 3:0. Arsenal-menn bæta við sínu þriðja marki eftir langa sókn. Joel Campbell fann þá Alexis Sáncez sem skoraði sitt annað mark.

21.08 Mark í Portúgal! Porto – Dynamo Kiev 0:2. Og það eftir engin smá mistök hjá Iker Casillas í marki Porto. Hann kýlir lélegt skot Derlis González upp í loftið og boltinn endar svo í netinu.

21:05 Mark í Barcelona! Barcelona – Roma 5:0. Þetta er svakalegt! Lionel Messi var að skora sitt annað mark og fimmta mark Börsunga. Hann átti sjálfur skot sem var varið, en fylgdi laglega á eftir. Við skulum ekki gleyma því að Roma er ekkert áhugamannalið!

20.59 Mark í Barcelona! Barcelona – Roma 4:0. Þetta er svo mikil einstefna hjá Börsungum. Nú skorar Gerard Piqué eftir að þeir spiluðu sig í gegnum vörnina enn einu sinni. Það er Messi sem átti lokasendinguna.

20.56 Rautt í München! Bayern München – Olympiacos 3:0. Er nú möguleiki fyrir Alfreð og félaga? Holger Badstuber fær rautt spjald í liði heimamanna, sem eru þó þremur mörkum yfir. Alfreð er enn á bekknum.

20.47 Síðari hálfleikur er hafinn. Leikirnir eru að fara í gang á ný einn af öðrum.

20.33 Hálfleikur. Nú er verið að flauta til hálfleiks í öllum sex leikjunum. Stöðuna má sjá hér að ofan, en það hefur ekki vantað fjörið!

20.31 Mark í Barcelona! Barcelona – Roma 3:0. Rétt undir lok fyrri hálfleiks bæta Börsungar þriðja marki sínu við. Luis Suárez skorar sitt annað mark í kvöld, tók boltann nú laglega á lofti og þetta virðist nú nánast bara búið.

20.30 Rautt í Ísrael! Maccabi Tel Aviv – Chelsea 0:1. Róðurinn þyngist fyrir heimamenn, þar sem Tal Ben Haim fær beint raut tspjald fyrir að sparka Diego Costa yfir. Glöggir lesendur vita kannski að Ben Haim er einmitt fyrrum leikmaður Chelsea!

20.22 Mark í Portúgal! Porto - Dynamo Kiev 0:1. Gestirnir frá Úkraínu eru komnir yfir gegn toppliði riðilsins. Þar er Andriy Yarmolenko að verki úr vítaspyrnu.

20.21 Mark í Frakklandi! Lyon – Gent 1:1. Belgarnir hafa jafnað metin og það var ekkert smá mark. Danijel Milicevic smellti þá boltanum beint í nærhornið úr aukaspyrnu!

20.17 Mark í London! Arsenal – Dinamo Zagreb 2:0. Sóknarþungi Arsenal hélt áfram eftir fyrsta markið og Alexis Sánchez bætti við marki örskömmu síðar eftir varnarmistök hjá Króötunum.

20.13 Mark í London! Arsenal – Dinamo Zagreb 1:0. Heimamenn eru komnir yfir á Emirates. Mesut Özil skoraði með skalla eftir hárnákvæma fyrirgjöf frá Alexis Sánchez.

20.08 Mark í München! Bayern München – Olympiacos 3:0. Já, Bayern er heldur betur í stuði. Nú var Thomas Müller að skora þriðja mark þeirra gegn Alfreð og félögum. Það eru rétt tuttugu mínútur liðnar!

20.07 Mark í Ísrael! Maccabi Tel-Aviv – Chelsea 0:1. Englandsmeistararnir eru komnir yfir í Ísrael, en þar var miðvörðurinn Gary Cahill að verki eftir að fyrsta tilraun hans var varin.

20.04 Mark í Barcelona! Barcelona – Roma 2:0. Strax í næstu sókn eftir að hafa komist yfir tvöfalda Börsungar metin. Þar er Lionel Messi að verki eftir hreint út sagt magnað spil, þar sem þeir gjörsamlega sundurspiluðu vörn Roma!

20.02 Mark í Barcelona! Barcelona – Roma 1:0. Eftir að hafa verið dæmt af áðan þá skora Börsungar nú löglegt mark. Þar er að verki Luis Suárez en við minnum á að Börsungar eru þegar komnir áfram eftir jafntefli BATE og Leverkusen fyrr í dag.

20.01 Mark í München! Bayern München – Olympiacos 2:0. Þetta ætlar að verða erfitt kvöld fyrir Alfreð og félaga. Kingsley Coman með skot að marki sem fer í Robert Lewandowski sem klárar dæmið og skorar örugglega.

19.56 Mark í München! Bayern Müncen – Olympiacos 1:0. Alfreð og félagar lentir undir. Douglas Costa skoraði þá eftir að hafa hirt frákastið eftir skot Jerome Boateng.

19.55 Mark í Frakklandi! Lyon – Gent 1:0. Heimamenn eru komnir yfir gegn Belgunum, það var Jordan Ferri sem skoraði markið.

19.54 Lionel Messi er í fyrsta sinn í byrjunarliði Barcelona síðan í september, og hann er strax búinn að koma boltanum í netið gegn Roma eftir sendingu frá Neymar. Messi var hins vegar flaggaður rangstæður.

19.45 Leikirnir eru hafnir.

19.05 Tveimur leikjum er þegar lokið. Zenit lagði Valencia, 2:0, í H-riðli og er með fullt hús stiga og BATE og Leverkusen gerðu 1:1 jafntefli í E-riðli. Jafnteflið þýðir að Barcelona er þegar öruggt í 16-liða úrslitin, en liðið fær Roma í heimsókn í kvöld.

19.00 Byrjunarliðin eru klár og má sjá hér að neðan. Alfreð okkar Finnbogason er á bekknum gegn Bayern en Lionel Messi snýr aftur í byrjunarlið Barcelona í fyrsta sinn síðan í september, svo eitthvað sé nefnt.

Barcelona: Ter Stegen; Alves, Vermaelen, Piqué, Alba; Busquets, Rakitić, Sergi Roberto; Suárez, Neymar, Messi.
Roma: Szczęsny; Maicon, Rüdiger, Manolas, Digne; Nainggolan, Keita, Pjanić; Falqué, Florenzi, Džeko.

Arsenal: Cech, Bellerin, Koscielny, Mertesacker, Monreal, Flamini, Cazorla, Campbell, Ozil, Alexis, Giroud.
Dinamo Zagreb: 
Eduardo, Ivo Pinto, Sigali, Măţel, Taravel, Antolić, Paulo Machado, Gonçalo Santos, Rog, Fernandes, Pjaca.

Bayern München: Neuer; Rafinha, Boateng, Badstuber, Lahm; Vidal, Coman, Costa, Robben; Müller, Lewandowski.
Olympiacos: 
Roberto, da Costa, Elabdellaoui, Siovas, Masuaku, Milivojević, Kasami, Cambiasso, Pardo, Sebá, Brown.

Porto: Casillas; Pereira, Layún, Martins Indi, Marcano; Rúben Neves, Danilo, Imbula; Brahimi, Aboubakar, Tello.
Dynamo Kiev:
Shovkovskiy, Danilo Silva, Antunes, Dragovic, Khacheridi, Sydorchuk, Rybalka, Garmash, González, Yarmolenko, Júnior Moraes.

Maccabi Tel Aviv: Rajković, Dasa, Ben Harush, Ben Haim, Carlos García, Alberman, Zahavi, Rikan, Igiebor, Peretz, Ben Chaim.
Chelsea: 
Begovic; Azpilicueta, Cahill, Terry, Rahman; Fabregas, Matic; Willian, Oscar, Hazard; Diego Costa.

Lyon: Lopes, Rafael, Bisevac, Mapou, Bedimo, Tolisso, Ferri, Malbranque, Ghezzal, Valbuena, Lacazette.
Gent: 
Sels, Mitrović, Asare, Nielsen, Renato Neto, Kums, Saief, Dejaegere, Foket, Milicevic, Depoitre.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert