Varði tvö víti og kom Bodø/Glimt áfram

Hannes Þór Halldórsson kom Bodø/Glimt áfram.
Hannes Þór Halldórsson kom Bodø/Glimt áfram. AFP

Það var líf og fjör í norska bikarnum í knattspyrnu í dag en fjölmargir Íslendingar fengu að spreyta sig. Hannes Þór Halldórsson og félagar hans í Bodø/Glimt komust áfram eftir að hafa sigrað Haugesund eftir vítaspyrnukeppni.

Hannes lék allan leikinn í rammanum hjá Bodø/Glimt í dag. Staðan var 2:2 eftir venjulegan leiktíma en bæði lið skoruðu svo eitt mark í framlengingu. Því var farið með leikinn í vítaspyrnukeppni þar sem Bodø/Glimt hafði betur.

Hannes varði tvær vítaspyrnur í vítakeppninni og því ljóst að liðið er komið í 8-liða úrslit.

Kristinn Jónsson lék allan leikinn er Sarpsborg vann Stjørdals Blink 3:0. Aron Sigurðarson var í byrjunarliði Tromsø sem vann Odds Ballklubb 3:2. Aron fór af velli á 71. mínútu leiksins.

Elías Már Ómarsson byrjaði fyrir Vålerenga sem vann Vidar 3:1. Elías fór af velli á 65. mínútu.

Ingvar Jónsson var hvíldur er Sandefjord sigraði Sandnes Ulf 2:1. Steinþór Freyr Þorsteinsson spilaði þó allan leikinn fyrir Sandnes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert