Sakho kominn úr banni

Mamadou Sakho er kominn úr banni.
Mamadou Sakho er kominn úr banni. AFP

Mamadou Sakho, miðvörður Liverpool á Englandi, er ekki lengur í banni eftir að hafa fallið á lyfjaprófi eftir leik liðsins gegn Manchester United í Evrópudeildinni í mars, en honum verður ekki refsað frekar. Það er franska tímaritið L'Equipe sem greinir frá þessu í dag.

Franski varnarmaðurinn féll á lyfjaprófi eftir leik liðsins gegn Manchester United í Evrópudeildinni í mars en greint var frá því í lok apríl. Knattspyrnusamband UEFA ákvað í kjölfarið að setja hann í eins mánaðar bann frá fótbolta á meðan rannsókn fór fram.

Talið var að Sakho yrði refsað frekar og hann myndi fá allt að tveggja ára bann fyrir að hafa fallið á lyfjaprófinu en UEFA hefur þó ákveðið að refsa honum ekki frekar.

Sakho viðurkenndi að hafa innbyrt brennslutöflur en hélt þó sakleysi sínu fram. Hann fullyrti þá að töflurnar væru ekki á bannlista hjá lyfjaeftirlitinu en svo virðist sem hann hafi haft eitthvað til síns máls, þar sem honum verður ekki refsað frekar.

Leikmaðurinn missti af úrslitaleik Evrópudeildarinnar og missti sæti sitt í franska landsliðshópnum sem fer á Evrópumótið en þó er líklegt að Didier Deschamps, þjálfari landsliðsins, geri breytingar á hópnum fyrir Evrópumótið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert