Doha, Barcelona og Eugene sækja um HM 2019

Við rásmark 110m grindahlaups karla á HM 2013 í Moskvu.
Við rásmark 110m grindahlaups karla á HM 2013 í Moskvu. AFP

Borgirnar Doha í Katar, Barcelona á Spáni og Eugene í Bandaríkjunum sækjast allar eftir því að halda heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum utanhúss árið 2019. Umsóknirnar voru staðfestar á stjórnarfundi Alþjóða frjálsíþróttasambandsins, IAAF í gær.

Ákveðið verður á fundi IAAF í Mónakó í nóvember hver borganna hreppir hnossið. Næsta heimsmeistaramót verður haldið á Ólympíuleikvanginum í Peking, Kína í ágúst 2015. HM 2017 verður svo á Ólympíuleikvanginum í London.

HM í frjálsíþróttum var haldið fyrst árið 1983 í Helsinki, höfuðborg Finnlands og var haldið á fjögurra ára fresti í fyrstu. Frá og með 1991 hefur HM hins vegar haldið annað hvert ár og var síðast í Moskvu í Rússlandi í fyrra.

HM í frjálsum íþróttum utanhúss hefur aldrei verið haldið í neinni af borgunum þremur sem sækja um að halda mótið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert