Enn fleiri á leið í keppnisbann

Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar.
Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar. AFP

Forráðamenn Alþjóðaólympíunefndarinnar tilkynntu í dag að blóðprufur 23 íþróttamanna sem tóku þátt í Ólympíuleikunum í London árið 2012 hafi innihaldið ólögleg lyf. Íþróttamennirnir koma úr fimm mismunandi íþróttagreinum og frá sex þjóðum. 

Alþjóðaólympíunefndin tók 454 blóðsýni frá íþróttamönnum sem tóku þátt í Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 til endurskoðunar og þar að auki 265 blóðsýni frá íþróttamönnum sem kepptu á Ólympíuleikunum í London árið 2012.

Alþjóðaólympíunefndin tilkynnti í síðustu viku að blóðsýni 31 íþróttamanns sem tók þátt í Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 hafi innihaldið ólögleg lyf í kjölfar endurskoðunar með nýjustu tækni og nútímaaðferðum við skimun á blóðsýnum. 

„Þessi endurtekna greining okkar sýnir svart á hvítu vilja okkar til þess að berjast gegn ólöglegum lyfjum í íþróttum. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að halda þeim íþróttamönnum sem hafa notað ólögleg lyf frá Ólympíuleikunum í Ríó í sumar,“ sagði Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert