Er Ríó-borg reiðubúin?

Umræða um öryggis- og heilbrigðismál kemur yfirleitt upp í tengslum við Ólympíuleika. Þetta segir Andri Stefánsson, aðalfararstjóri íslenska ólympíuhópsins í Rio de Janeiro í Brasilíu, og kveður slíka umræðu vera af hinu góða.

Áhyggjur hafa verið af öryggismálum á leikunum, bæði vegna þeirra hryðjuverka sem framin hafa verið víða um heim undanfarnar vikur og mánuði, en ekki síður vegna yfirlýsinga brasilísku lögreglunnar um að vegna fjársveltis væri ekki hægt að tryggja öryggi gesta og íþróttafólks. Skipulagi öryggismála hefur þótt ábótavant og t.d. var fyrir nokkrum dögum ákveðið að herlögreglan myndi taka yfir öryggisgæslu við keppnisstaði eftir að í ljós kom að fyrirtækið sem ráðið hafði verið til að sinna gæslunni hafði einungis ráðið 500 af þeim 3.000 öryggisvörðum sem krafist var.

Sumarólympíuleikarnir í Ríó verða settir næstkomandi föstudag og hefur framkvæmd og undirbúningur leikanna sætt talsverðri gagnrýni. Öryggismál, efnahagsvandi Brasilíu, Zika-veiran, keppnisbann rússneskra íþróttamanna og mengun hafa verið ofarlega á baugi en eftirlitsnefnd Alþjóðaólympíusambandsins segir aðstæður í Ríó vera til fyrirmyndar. 

Búist er við 11.239 íþróttamönnum frá 208 löndum sem keppa í 39 íþróttagreinum, launaðir starfsmenn verða yfir 100.000 og um 50.000 sjálfboðaliðar og 85.000 lögreglu- og hermenn verða þar að störfum.

Árið 2009, þegar borgaryfirvöld í Ríó sóttu um að halda leikana, hétu þau að grípa til allra mögulegra aðgerða til að hreinsa haf og strendur. Það reyndist þeim ofviða og ekki tókst að standa við þessi fyrirheit. Gríðarleg mengun, 1,7 milljón sinnum meiri en leyfileg er í Bandaríkjunum og Evrópu, mælist í hafinu við Copacabana og Ipanema, hinar frægu strendur Ríó, en einna verst er ástandið í Guanabara-flóa þar sem „mannaskíturinn þyrlast upp eins og ský í stormviðri“, eins og segir í frétt Bloomberg um málið. Til stendur að keppa í nokkrum íþróttagreinum í flóanum og hefur það sætt gagnrýni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka