Gísli vann Duke of York

Gísli Sveinbergsson.
Gísli Sveinbergsson. mbl.is/Styrmir Kári

Kylfingurinn Gísli Sveinbergsson stóð í dag uppi sem sigurvegari á Duke of York golfmótinu sem fór fram á Royal Aberdeen í Skotlandi. Aðeins landsmeistarar pilta og stúlkna fá keppnisrétt á mótinu, sem er því gríðarlega sterkt ungmennamót.

Leika átti þrjá hringi, en vegna þoku voru aðeins farnir tveir hringir og lék Gísli á fæstum höggum. Hann var í forystu eftir fyrri daginn í gær þegar hann lék á 67 höggum og lék svo seinni hringinn á 68 höggum og endaði á því að leika fjórum höggum betur en næsti maður.

Þetta er í þriðja sinn sem Íslendingur vinnur mótið. Ragnar Garðarsson vann mótið 2012 og Guðmundur Ágúst Kristjánsson árið 2010.

Ragnhildur Kristinsdóttir keppti líka í mótinu og endaði í 35. sæti. Hún lék hringina á 81 og 75 höggum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert