Ólafía með stórstjörnu í ráshópi

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á Bahamaeyjum þar sem hún undirbýr sig …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á Bahamaeyjum þar sem hún undirbýr sig fyrir sitt fyrsta mót á LPGA. Ljósmynd/GSÍ

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi, verður í ráshópi með Natalie Gulbis þegar hún fær eldskírn sína á bandarísku LPGA-mótaröðinni á Bahamaeyjum. 

Þær hefja leik kl. 8.22 að staðartíma á 1. teig á fimmtudaginn eða kl. 13.22 að íslenskum tíma.

Gulbis er bandarísk og hefur verið á mótaröðinni síðan 2002. Gulbis varð fljótt þekkt nafn í golfinu og landaði samningum við ýmis stór vörumerki eins og Adidas. Hún hefur nýtt frægð sína með ýmsum hætti og komið víðar við en á golfvellinum. 

Henni hefur þó ekki tekist að sigra á risamóti en hefur verið á meðal tíu efstu á þeim öllum og á meðal fimm efstu á þremur þeirra. Hefur hún þénað rúmlega 500 milljónir íslenskra króna með árangri sínum á mótaröðinni í gegnum árin. 

Svo skemmtilega vill til fyrir Ólafíu að Cheyenne Woods er einnig í ráshópnum en hún var samherji Ólafíu í skólaliði Wake Forrest á sínum tíma í bandaríska háskólagolfinu. Hafa þær verið góðar vinkonur síðan þá. Woods er bróðurdóttir Tiger Woods. 

Natalie Gulbis spáir í spilin á æfingahringnum á Bahamaeyjum í …
Natalie Gulbis spáir í spilin á æfingahringnum á Bahamaeyjum í dag. Ljósmynd/GSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert