Guðrún í forystu með vallarmet

Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék frábært golf í dag.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék frábært golf í dag. Ófeigur Lýðsson

Gríðarlega mikil spenna er á Íslandsmótinu í golfi. Guðrún Brá Björgvinsdóttir er efst í kvennaflokki sem stendur en hún lék frábærlega í dag og kom í hús á fjórum höggum undir pari, eða 67 höggum. Guðrún Brá lék á fjórum höggum yfir pari í gær og er því á parinu í heildina. Hún bætti vallarmet Ragnhildar sem lék á 69 í gær, en aldrei áður hafði verið leikið á þremur nýjum holum.

Valdís Þóra Jónsdóttir lék á 74 eða þremur höggum yfir pari og er sem stendur í öðru sæti. Ragnhildur Kristinsdóttir var efst eftir fyrsta hring, en hún lék á 75 höggum í dag og er jöfn Valdísi í öðru til þriðja sæti.

Guðrún Brá krækti í þrjá fugla í röð á nýju holunum 13., 14. og 15. Hún fékk fimm fugla í heildina og tapaði aðeins einu höggi. Enn eru margir kylfingar úti á velli og verður staðan því ekki ljós fyrr en í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert