Atli: Þessu er langt frá því lokið

Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, segir einvígið við FH langt frá því vera lokið af hálfu Akureyrar þótt liðið sé undir, 2:0, í leikjum talið. Atli var í sömu stöðu með KA fyrir níu árum og tókst að snúa við taflinu og verða Íslandsmeistari.

Atli segist vera ánægður með spilamennsku sinna manna lengst af þessum leik. Liðið hafi reyndar gert helst til of mörg tækimistök í fyrri hálfleik sem hafi fært FH nokkur hraðaupphlaup. Það hafi verið lagfært í síðari hálfleik sem hafi verið góður af hálfu Akureyrarliðsins sem hafi á köflum verið manni færra.

Atli hrósar mjög dugnaði og baráttu sinna manna að jafna metin undir lokin eftir að hafa lent fjórum mörkum undir, 25:21. „Sú staðreynd sýnir að það býr heilmikið í þessu liði," segir Atli.

FH vantar einn sigur upp á að hampa Íslandsbikarnum. Atli segir það ekki koma til greina að FH vinni leikinn á sunnudag og taki við Íslandsbikarnum á heimavelli Akureyrar.  „Við munum gefa allt sem eigum í leikinn á sunnudag og ég vona bara að Íþróttahöllinn verði full og stemningin góð," segir Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar.

Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, Guðmundur Hólmar Helgason.
Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, Guðmundur Hólmar Helgason. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert