Einar og félagar áfram í bikarnum

Einar Ingi Hrafnsson skoraði fjögur mörk fyrir Arendal í kvöld.
Einar Ingi Hrafnsson skoraði fjögur mörk fyrir Arendal í kvöld. Morgunblaðið/Ómar

Einar Ingi Hrafnsson og samherjar í Arendal komust í kvöld í undanúrslit í norsku bikarkeppninni í handknattleik þegar þeir unnu Lilleström, 29:22, á útivelli. Arendal var fimm mörkum yfir í hálfleik, 15:10, og var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda.

Einar Ingi skoraði fjögur mörk í leiknum. Arendal mætir Elverum í undanúrslitum á heimavelli 5. nóvember.

Pétur Pálsson skoraði líka fjögur mörk fyrir B-deildarliðið Kolstad þegar það tapaði á heimavelli fyrir Noregsmeisturum Haslum, 25:22. Kolstad, sem er í efsta sæti B-deildar, veitti Haslum harða keppni í leiknum og aðeins munaði einu marki í hálfleik, 13:12, fyrir Haslum.

Storhamar, liðið sem Alfreð Örn Finnsson þjálfar, féll úr keppni í 8-liða úrslitum bikarkeppni kvenna þegar liðið tapaði fyrir Oppsal, 30:25.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert