Áfram er barist um sæti í úrslitum

Valur og FH mætast í fyrri undanúrslitaleiknum í dag.
Valur og FH mætast í fyrri undanúrslitaleiknum í dag. Ómar Óskarsson

Eftir vel heppnaða undanúrslitaleiki kvenna í Coca Cola-bikarnum í handknattleik í gær er komin röðin að undanúrslitaleikjum karla í dag. Í fyrri leik dagsins sem hefst klukkan 17.15. í Laugardalshöll eigast við Valur og FH en þeim síðari leiða Íslandsmeistarar ÍBV og bikarmeistarar síðasta árs, Haukar, saman hesta sína.

Valur hefur verið með jafnbesta liðið í Olís-deildinni á þessari leiktíð enda er liðið í efsta sæti um þessar mundir. Varnarleikur Vals hefur verið öflugur í vetur og markvarslan einnig þar sem þeir Hlynur Morthens og Stephen Nielsen hafa skipst á að loka markinu. Skemmst er að minnast viðureignar Vals og FH í Vodafonehöllinni 16. febrúar. Þar hafði FH yfirhöndina lengst af gegn vængbrotnu liði Vals sem var án Elvars Friðrikssonar og Guðmundar Hólmars Helgasonar. Á tíu mínútna kafli rétt um miðjan síðari hálfleik snerist leikurinn Val í vil þegar Nielsen tók að verja allt hvað af tók. Þrátt fyrir að FH-ingar hafi leikið einn sinn besta leik á tímabilinu þá urðu þeir að sætta sig við þriggja marka tap, 31:28.

Elvar og Guðmundur Hólmar verða með Valsliðinu í kvöld og því er það lítt árennilegt.

Margir minnast fjörugrar rimmu ÍBV og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn í vor sem leið. Nú er röðin komin að þessum liðum að berjast um sæti í úrslitum bikarkeppninnar. Haukar eiga titil að verja. Eftir misjafnt gengi fyrir áramót í Olís-deildinni hafa Haukar sótt í sig veðrið á nýju ári og virðast lítt árennilegir. Skarð er fyrir skildi að Elías Már Halldórsson er ekki gjaldgengur með Haukum að þessu sinni þar sem hann lék með Akureyri í bikarkeppninni fyrir áramót áður en hann söðlaði um.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert