Stefán og Rögnvald dæmdu úrslitaleik

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson verða væntanlega glaðbeittir í …
Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson verða væntanlega glaðbeittir í Köln um helgina. mbl.is/Golli

Íslenskir dómarar verða í fyrsta sinn með í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla að þessu sinni síðan núverandi keppnisfyrirkomulag var tekið upp vorið 2010. Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæma leikinn um þriðja sætið á morgun. Ekki skýrist fyrr en að loknum undanúrslitaleikjunum í dag hvaða lið mætast í leiknum hjá Antoni og Jónasi. Þeir eru hins vegar ekki fyrstu íslensku dómararnir sem ná svona langt í keppninni.

Þeir félagar hafa í gegnum tíðina dæmt marga leiki í Meistaradeildinni en aldrei náð eins langt og að þessu sinni. Anton Gylfi dæmdi einnig í undanúrslitum vorið er hann dæmdi með Hlyni Leifssyni en þetta var einn af síðustu leikjum Antons og Hlyns áður en sá síðarnefndi lagði flautuna á hilluna góðu.

Stefán Arnaldsson og Gunnar Viðarsson dæmdu fyrri úrslitaleik Portland San Antonio frá Spáni og Montpellier í Meistaradeildinni vorið 2003. Þeir dæmdu einnig fyrri undanúrslitaleik Kiel og Badel Zagreb vorið 2000.

Stefán dæmdi áður ásamt fyrri samherja sínum í dómgæslunni, Rögnvald Erlingssyni, fyrri undanúrslitaleik Split og Kiel á vordögum 1998. Árið áður, 19. apríl 1997, dæmdu Stefán og Rögnvald síðari úrslitaleik milli Barcelona og Badel Zagreb í Meistaradeildinni að viðstöddum 11 þúsund áhorfendum í Zagreb. Barcelona vann leikinn, 30:23, eftir öruggan sigur á heimavelli, 31:22.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert