Gott hjá strákunum að ná þriðja sæti

Róbert Gunnarsson.
Róbert Gunnarsson.

„Sigurinn hefði getað fallið hvoru megin sem var en sem betur fer þá unnum við. Það er alltaf gaman að vinna og hefði verið heldur verra að mæta tvisvar til leiks á sömu helginni og tapa báðum viðureignum,“ sagði Róbert Gunnarsson, leikmaður PSG, í samtali við mbl.is í Köln eftir að PSG vann Kiel, 29:27, í leiknum um þriðja sæti í Meistaradeild Evrópu í handknattleik.

„Vonandi gefur það félaginu eitthvað að fá bronsverðlaun í þessari keppni í fyrsta sinn,“ sagði Róbert sem yfirgefur PSG eftir fáeinar vikur og flytur til Danmerkur.

Róbert segir að tapið í undanúrslitaleiknum við Vive Kielce í gær hafi langst þungt á leikmenn  PSG og fyrir vikið hafi stemmningin verið þung. „Það var mjög þungt yfir mönnum í gær og í morgun fram að leiknum við Kiel. Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda hvernig stemmningin hefði verið innan hópsins hefðum við tapað þessum leik líka. Okkur tókst að ljúka þessu á jákvæðum nótum. Gott hjá strákunum að ná þriðja sætinu.“

Róbert sat á bekknum bæði í leiknum við Kielce í gær og gegn Kiel í dag. Hann sagðist ekki vilja svekkja sig á þeirri staðreynd. „Svona er staðan hjá mér innan liðsins. Ég vil ekki vera að svekkja mig á hlutum sem ég fæ engu breytt um. Það koma nýjar áskoranir eftir þennan dag,“ sagði Róbert Gunnarsson, leikmaður franska meistaraliðsins PSG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert