Sigurinn síst of stór

Ester Óskarsdóttir, leikmaður ÍBV, skýtur hér að marki Gróttu í …
Ester Óskarsdóttir, leikmaður ÍBV, skýtur hér að marki Gróttu í leik liðanna í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV sigraði Gróttu með níu marka mun, 34:25, í fyrsta leik liðanna í Olís-deildinni í dag. ÍBV stakk í raun af í byrjun og litu aldrei til baka. Við ræddum við Hrafnhildi Ósk Skúladóttur, þjálfara ÍBV, eftir leikinn en hún var í raun himinlifandi.

„Ég bjóst við mjög spennandi leik í dag en formið okkar mun betra en á þeirra liði. Þær eiga eftir að bæta vel í formið og þær eiga eftir að verða mikið, mikið betri.“

ÍBV spilaði með sjö menn gegn sex í sókn allan leikinn, heldur Hrafnhildur að það hafi komið Gróttu á óvart?

„Nei, ég var sá þjálfari sem notaði þetta langmest í fyrra. Ég var mjög mikið með sjöunda manninn þannig að það kæmi mér mikið á óvart ef að þetta hefur komið honum á óvart. Hann hefur mjög sennilega búist við því,“ sagði Hrafnhildur sem heldur að Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, hafi búist við þessu skipulagi hjá ÍBV.

„Það voru þrír nýir leikmenn sem léku með okkur í dag og þær komu allar frábærlega inn, þetta var það sem ég bjóst við. Ekki nóg með að þetta séu frábærir leikmenn þá eru þær frábærir karakterar, „winnerar“ og leiðtogar. Frábær viðbót í hópinn.“

Sandra Erlingsdóttir, dóttir Erlings Richardssonar, þjálfara Füchse Berlin, kom skemmtilega inn í lið ÍBV í dag. Hún átti óteljandi stoðsendingar og kom einnig með baráttu inn í vörnina.

„Þetta er eins og við var að búast. Ég hef alveg svakalega trú á þessari stelpu, þetta er framtíðar landsliðsmaður og hún er stórkostlegur leikmaður eins og ég segi og karakter.“

Hópur ÍBV er virkilega þunnur, til að mynda voru tveir leikmenn óleikhæfir á leikskýrslu í dag. Hefur Hrafnhildur áhyggjur af þessu?

„Við megum ekki við neinu, ef eitthvað fer að gerast þurfum við strax að fá lánaða leikmenn eða kippa af götunum hérna. Guðbjörg kemur inn og bjargar mér í dag, hún er búin að mæta tvisvar sinnum á æfingu og kann ég henni miklar þakkir fyrir.“

ÍBV er spáð 6. sæti af þjálfurum og fyrirliðum hinna liðanna í deildinni, hvað finnst Hrafnhildi um það?

„Ég horfi bara á spána hans Lúthers,“ sagði Hrafnhildur en hún átti þá við spá vefsíðunnar fimmeinn.is sem spáði liði Hrafnhildar efsta sæti deildarinnar.

„Ég vissi að mér yrði spáð 5. eða 6. sæti, þetta er fínt. Það er engin pressa á okkur og ég held að þetta hafi verið það sem flestir höfðu búist við. Greinilega allir þjálfarar og fyrirliðar í deildinni bjuggust við okkur þarna. Ég hef samt meiri trú á mínu liði heldur en hinir.“

Er eitthvað sem ÍBV getur lagað frá þessum leik, eða var þetta hinn fullkomni leikur?

„Við fáum fullt af flottum færum og hefðum geta unnið þetta mun stærra fannst mér. Mér fannst sigurinn síst of stór, það gekk allt sem við lögðum upp með, fullkomlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert