Naumur baráttusigur FH-inga

Valsmaðurinn Anton Rúnarsson sækir að marki FH í leiknum í …
Valsmaðurinn Anton Rúnarsson sækir að marki FH í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

FH-ingar unnu Val, 27:25, í Kaplakrika í kvöld í fyrsta leik liðanna í Olísdeild karla í handknattleik. Staðan var jöfn, 11:11, í hálfleik og lengst af var leikurinn jafn en síðustu mínúturnar voru FH-inga og þeirra var sigurinn.

Fyrri hálfleikur var afar jafn frá upphafi til enda. Hvort lið náði þó að minnsta kosti einu sinni tveggja marka forskoti en hélst ekkert á því. Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik,11:11, sem var með nokkrum ólíkindum þar sem engin markvarsla var hjá Valsmönnum á sama tíma og Ágúst Elí Björgvinsson var með á nótunum í marki FH-inga.  Varnarleikurinn var í aðalhlutverki, ekki síst hjá Val. FH-ingar gerðu alltof mörg einföld mistök s.s. slakar sendingar samherja á milli. Valsmenn hafa litla breidd í leikmannahópnum, ekki síst í sókninni vegna fjarveru Ólafs Ægis Ólafssonar og Josip Juric Grgic vegna meiðsla og leikbanns Ýmis Gíslasonar.

FH-ingar náðu tökum á leiknum snemma í síðari hálfleik og voru komnir með þriggja marka forskot, 20:17, þegar hálfleikurinn var hálfnaður. Ekki var það síst vegna stórs munar á markvörslunni og í raun voru FH-ingar klaufar að hafa ekki verið með meira forskot. Um miðjan síðari hálfleik hafði Ágúst Elí varið 14 skot en Sigurður Ingiberg Ólafsson og Hlynur Morthens samtals þrjú skot Valsmegin.

Forskotið rann FH-ingum úr greipum. Aðeins fimm mínútum síðar var staðan orðin jöfn, 21:21. Áfram var jafnt á öllum tölum fram á síðustu mínútu leiksins. Þá náðu FH-ingar að komast marki yfir, 26:25. Ruðningur var dæmdur á Atla Karl Bachmann þegar 58 sekúndur voru til leiksloka. FH-ingar nýttu síðustu mínútuna til þess að innsigla sigur sinn.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu. Sjá má tölfræðina hér að neðan.

FH 27:25 Valur opna loka
69. mín. Halldór Ingi Jónasson (FH) tekur leikhlé 37 sekúndur til leiksloka.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert