Erum bara eins og kettlingar

Janus Daði Smárason sækir að vörn Aftureldingar og Gunnar Malmquist …
Janus Daði Smárason sækir að vörn Aftureldingar og Gunnar Malmquist reynir að stöðva hann. mbl.is/Golli

„Við erum bara eins og kettlingar á vellinum og fyrir vikið alltof linir í vörninni,“ sagði Janus Daði Smárason, markahæsti leikmaður Hauka í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Aftureldingu, 31:30, á heimavelli í Olísdeildinni í handknattleik karla. Janus Daði var eðlilega vonsvikinn yfir öðru tapi meistaranna í röð í upphafi deildarkeppninnar.

„Eftir að hafa byrjað leikinn taktískt vel og af grimmd þá gáfum við fljótlega og náðum varla að klukka leikmenn Aftureldingar. Ég held að þeir hafi fengið fimm aukaköst í fyrri hálfleik,“ sagði Janus og bætti. „Við lékum flottan sóknarleik í dag en fórum því miður með mörg færi forgörðum. En það er hrikalega erfitt ef við verðum að skora í hverri sókn vegna þess að við erum eins gatasigti í vörninni.  Við erum fyrst og fremst ekki nóg baráttuglaðir. Þetta er sama staða og við lentum í gegn ÍBV í Eyjum á síðasta laugardag,“ sagði Janus sem fer með félögum sínum á Selfoss í næstu umferð en Janus þekkir vel til á Selfossi eftir að hafa alist þar upp.

„Við verðum að berja frá okkur ef ekki á illa að fara. Maður fer ekki í sveitina nema að verða laminn svo við verðum að vera tilbúnir í slagsmál á Selfossi.  Á æfingu á morgun verðum við að berja hvern annan eða gera eitthvað til þess að vekja okkur til lífsins,“ sagði Janus Daði Smárason, leikmaður Hauka eftir tapið fyrir Aftureldingu í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert