Ákvað að ráðast á vörnina

Ásbjörn Friðriksson, FH.
Ásbjörn Friðriksson, FH. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Ég var orðinn heitur og ákvað að ráðast nokkrum sinnum á vörnina og það skilaði sér. Ég var ekki nógu duglegur við það lengi vel í leiknum,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH-inga, sem skoraði þrjú af síðustu fjórum mörkum liðsins í tveggja marka sigri á Val, 27:25, í Kaplakrika í kvöld í Olísdeild karla í handknattleik.

„Við vissum að leikurinn yrði erfiður og sýna þyrfti mikla þolinmæði gegn Valsmönnum, sem leika langar sóknir. Þeir eru sennilega þolinmóðasta sóknarlið í heiminum og eru klókir í þessu. Mér fannst við standa vörnina vel en síðan komu opnanir eftir að þeir voru búnir að sækja í mínútu,“ sagði Ásbjörn og bætti við að erfitt  væri að verjast Valsliðinu.

Sóknarleikur FH-inga var að sama skapi klaufalegur og liðinu tókst ekki að nýta þá yfirburði sem það hafði í vörðum skotum, en markverðir Vals voru varla með í leiknum. „Það voru merki um að þetta var fyrsti leikur á tímabili, ekki síst í sóknarleiknum í fyrri hálfleik. Við lékum okkur í færi og skoruðum, annað mál hefði verið ef við hefðum skotið úr slæmum færum. Þá hefðu markverðir Vals varið meira en þeir gerðu. Við verðum að fá kredit fyrir að spila okkur í færin,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH, og var eðlilega ánægður með að byrja keppnistímabilið með sigri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert