Bergvin úr leik til ársloka?

Bergvin Þór Gíslason verður hugsanlega ekki Akureyrarliðinu fyrr en í …
Bergvin Þór Gíslason verður hugsanlega ekki Akureyrarliðinu fyrr en í byrjun næsta árs. mbl.is/Eva Björk

Óttast er að Bergvin Þór Gíslason, leikmaðurinn sterki hjá Akureyri, leiki ekkert með liðinu fram að áramótum. Grunur leikur á að hann sé með brjósklos og reynist sá grunur á rökum reistur er talið að Bergvin verði ekki klár í slaginn með Akureyri fyrr en keppni í Olís-deildinni hefst í febrúarbyrjun eftir að heimsmeistaramót karla í Frakklandi verður um garð gengið.

Bergvin Þór var ekki leikmannahópi Akureyrar í gær þegar liðið mætti Stjörnunni í Garðabæ í upphafsumferð Olís-deildarinnar. 

Bergvin mun hafa kennt sér eymsla í bakinu snemma í vikunni og við skoðun vaknaði grunur um að um brjósklos gæti verið að ræða. 

Það á svo sannarlega ekki af Bergvin Þór að ganga en meiðsli af einum og öðrum toga, á tíðum alvarleg, hafa sett stórt strik í reikning hans í handboltanum undanfarin ár.

Auk Bergvins gat Ingimundur Ingimundarson ekki leikið með Akureyrarliðinu í gær vegna meiðsla. Ingimundur var á varamannabekknum í leiknum og var Sverre Jakobssyni þjálfara til halds og trausts. Vonast er til Ingimundur verði fljótlega í leikmannahópnum en óvíst er þó nákvæmlega hvenær það verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert