Pétur í undanúrslitin

Pétur Pálsson.
Pétur Pálsson. mbl.is/Árni Sæberg

Pétur Pálsson og félagar hans í norska liðinu Kolstad tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum norsku bikarkeppninnar í handknattleik eftir sigur á Fyllingen frá Bergen, 30:29, í hörkuleik í átta liða úrslitunum.

Kolstad var undir í hálfleik, 16:14, og var mest fjórum mörkum undir eftir hlé. Liðið sótti hins vegar í sig veðrið þegar leið á og komst yfir í stöðunni 21:20. Jafnræðið var mikið eftir það og Pétur skoraði þrítugasta mark liðsins og kom því í 30:28 þegar ein og hálf mínúta var eftir. Fyllingen náði að skora eitt mark til viðbótar en komst ekki lengra og Pétur og félagar hrósuðu því sigri.

Pétur skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum fyrir Kolstad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert