„Hrikalega góð mörk á lokakaflanum“

Stefán Árnason, þjálfari Selfoss.
Stefán Árnason, þjálfari Selfoss. mbl.is/Golli

„Þetta var ótrúlega sætur sigur. Þetta var mjög erfið fæðing, við vorum ansi lengi í gang og Valsararnir voru grimmir,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við mbl.is eftir sigur sinna manna á heimavelli gegn Val í Olís-deild karla í handknattleik.

Lokatölur leiksins voru 29:28 en Selfoss skoraði síðustu tvö mörk leiksins. Valur fékk færi á að jafna en síðasta sókn þeirra rann út í sandinn.

„Við vorum að elta allan tímann og hægt og rólega náðum við þeim án þess að komast yfir. Þetta var bara hrikalega jafnt og féll með okkur í lokin. Við vorum góðir í sókninni þegar leið á og vorum að fá mörg hrikalega góð mörk á lokakaflanum,“ sagði Stefán enn fremur.

„Við nýttum einni sókn meira en þeir þegar upp var staðið. Við vorum að fá dauðafæri varin og á móti voru þeir að fá mörk þar sem höndin var komin upp. Þetta réðst á þessum örfáu smáatriðum sem skipta öllu máli.“

Selfoss spilaði lélega vörn í upphafi leiks og Stefán sagðist hafa verið mjög óhress með þann kafla.

„Við vorum ekki að ná að brjóta og töpuðum ítrekað einn á móti einum. Það stóð ekki steinn yfir steini. Valur tók leikhlé þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og þá náðum við aðeins að búa til eitthvað smá varnarlega sem við náðum svo að byggja á í seinni hálfleik. Ég er mjög ánægður með það að vera á jafnlélegum degi varnarlega í fyrri hálfleik en geta komið okkur inn í leikinn aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert