Verðugt og skemmtilegt verkefni

Arnar Pétursson og Hlynur Morthens á góðri stundu
Arnar Pétursson og Hlynur Morthens á góðri stundu mbl.is/Óttar Geirsson

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, var nokkuð ánægður með riðil Íslands á Evrópumótinu í handbolta sem fram fer í Sviss og Austurríki í desember næstkomandi. Ísland leikur gegn Hollandi, Þýskalandi og Úkraínu í F-riðli sem leikinn verður í Innsbrück. 

„Mér líst bara vel á riðilinn. Þjóðverjar og Hollendingar eru með frábær lið, á topp 10 - 12 í heiminum. Ég hef minna séð af Úkraínu en þær náðu í úrslit í riðlinum og eru öflugar líka þannig að þetta eru allt saman góð lið og óhætt að segja að verkefnið sé verðugt en skemmtilegt á sama tíma,“ sagði Arnar í samtali við Mbl.is

Ísland átti möguleika lengi vel að enda í D-riðli sem var öllu árennilegri, skipaður Dönum, Svisslendingum og Færeyingum, en Króatar hrepptu það sæti. Aðspurður hvort hann hafi langað að hafna í þeim riðli svaraði Arnar:

„Jájá, ég sat við hliðina á fulltrúum Dana og Færeyinga og við vorum farnir að grínast með að við myndum enda með þeim. En ég er ánægður með að vera í Innsbruck, mig langaði þangað. Ég trúi ekki öðru en að það sé hægt að sameina handboltann og skíðin og búa til frábæra ferð“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta.

Tvær þjóðir komast upp úr hverjum riðli og í milliriðil mótsins. Fyrsti leikur Íslands verður gegn Hollendingum 29. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert