Sáttur en vildi gjarnan komast lengra

Alexander Petersson og Róbert Gunnarsson eftir leikinn gegn Dönum í …
Alexander Petersson og Róbert Gunnarsson eftir leikinn gegn Dönum í fyrrakvöld. mbl.is/Golli

„Svo sannarlega vildum við komast í átta liða úrslitin en það tókst ekki og við erum sáttir við þann árangur sem náðist,“ segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður Handknattleikssambands Íslands, spurður um árangur íslenska landsliðsins í handknattleik karla á heimsmeistaramótinu í Doha í Katar.

Þátttöku íslenska landsliðsins í mótinu lauk á mánudagskvöldið með fimm marka tapi fyrir Dönum í 16-liða úrslitum.

„Við verðum horfa til þess að þjóðunum er alltaf að fjölga sem geta teflt fram sterkum handboltaliðum,“ segir Guðmundur og nefnir sem dæmi Argentínu, Brasilíu, Egyptaland og Túnis. Nú eru komnar þjóðir sem voru auðveld bráð í gamla daga en eru það ekki lengur. Þetta er helsta breytingin sem er að verða að mínu mati í samkeppninni á handboltavellinum. Þar af leiðandi er enginn auðveldur andstæðingur þegar komið er í 16-liða úrslit á heimsmeistaramóti. Handboltinn er ekki lengur keppni Evrópuþjóða. Í 16-liða úrslitum er bara einn úrslitaleikur sem sker úr um hvort liðin halda áfram eða ekki,“ segir Guðmundur og bendir á að örlög Svía séu þau sömu og Íslendinga í þessari keppni.

„Við horfðum til þess að ná öðru sæti í okkar riðli en það kom í hlut Svía þegar upp var staðið. Í dag eru Svíar í sömu sporum og við, það er á heimleið, eftir tap í 16-liða úrslitum,“ segir Guðmundur og bætir við að meiðsli Arons Pálmarssonar hafi einnig sett verulegt strik í reikninginn hjá landsliðinu. „Fjarvera hans veikti okkar lið svo sannarlega.“

Sjá allt viðtalið við Guðmund í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert