„Stórfurðulegt að þjálfa þetta lið“

Magnus Blårand lætur í sér heyra á bekknum hjá Íslandi …
Magnus Blårand lætur í sér heyra á bekknum hjá Íslandi í Galati. Ljósmynd/Sorin Pana

„Ég get það hreinlega ekki,“ sagði Magnus Blårand, landsliðsþjálfari Íslands í íshokkí, í samtali við mbl.is aðspurður hvernig hann útskýri það hrun sem varð á frammistöðu íslenska liðsins milli leikja á HM í Rúmeníu. Ísland vann stórkostlegan sigur á heimamönnum í gær en í dag tapaði liðið 9:3 fyrir Belgíu.

„Það getur verið stórfurðulegt að þjálfa þetta lið. Í gær spiluðum við alveg virkilega vel og nánast yfirspiluðum það lið sem á að vera best í riðlinum. Í dag gerum við svo mörg einföld mistök og í hreinskilni er þetta frekar spurning um hugarfar heldur en mistökin sem við gerðum,“ sagði Blårand.

„Hokkí er íþrótt sem byggist á hugarfari og það vissu allir hvað þeir áttu að gera. En Belgarnir börðust alveg virkilega vel,“ sagði Blårand, en á morgun er frídagur hjá liðinu fyrir síðasta leikinn gegn Serbíu á sunnudag. Hvernig verður að rífa strákana upp á ný fyrir þann leik?

„Ef við fylgjum skipulaginu verður það ekkert mál. Við spiluðum fyrsta leikinn mjög vel en töpuðum svo. Við spilum þriðja leikinn frábærlega en brotnum niður í dag. Það er Serbía sem mun þurfa að borga fyrir þetta,“ sagði Magnus Blårand við mbl.is í Galati.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert