Stórleikur Westbrook dugði skammt

Russell Westbrook fór mikinn með Oklahoma City Thunder gegn Chicago …
Russell Westbrook fór mikinn með Oklahoma City Thunder gegn Chicago Bulls í gærkvöldi. Það nægði liðinu ekki til sigurs. AFP

Stórleikur Russell Westbrook dugði Oklahoma City Thunder skammt þegar liðið sótti Chicago Bulls heim í gærkvöldi í NBA-deildinni í körfuknattleik í Bandaríkjunum. Bulls vann með þriggja stiga mun, 108:105. Westbrook skoraði 43 stig, tók átta fráköst og gaf sjö stoðsendingar. 

Serge Ibaka skoraði 25 stig og tók níu fráköst fyrir Thunder. Nikola Mirotic skoraði 26 stig fyrir Bulls og tók níu fráköst og Mike Dunleavy og Pau Gasol skoruðu 21 stig hvor en Bulls lék án Derrick Rose, Jimmy Butler og Taj Gibson.  Leikmenn Oklahoma virtust hafa góð tök á leiknum en þeir voru með níu stiga forskot, 100:91, þegar rétt rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. Þá skoraði Bulls átta stig í röð og sneru leiknum sér í hag. 

Gott gengi Portland Trail Blazers heldur áfram en í gærkvöldi vann liðið Dallas á heimavelli, 94:75. LaMarcus Aldridge skoraði 17 stig og tók 12 fráköst og Nicolas Batum skoraði 15 stig.  Í jöfnu liði Dallas skoruðu Amare Stoudemire og Monta Ellis 12 stig hvor. 

Í gær var greint frá því að „járnmaðurinn," Wesley Matthews, verður frá keppni með Portland-liðinu út keppnistímabilið vegna meiðsla í hásin. Hann hefur aðeins orðið af 13 leikjum í deildinni síðan hann byrjaði að leika í henni fyrir sex árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert