Stærsta einkavæðing Íslandssögunnar staðfest með undirskrift

Fulltrúar ríkisins og Samson skrifa undir kaupsamninginn í Þjóðmenningarhúsinu í …
Fulltrúar ríkisins og Samson skrifa undir kaupsamninginn í Þjóðmenningarhúsinu í dag. mbl.is/Kristinn

Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra og eigendur Samson eignarhaldsfélags, þeir Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Magnús Guðmundsson, skrifuðu um klukkan 17 í dag undir samning um kaup Samson á 45,8% hlutabréfa í Landsbanka Íslands. Er kaupsamningurinn á grundvelli samnings sem gerður var 18. október en þá var gert ráð fyrir að kaupverðið væri 12,3 milljarðar króna. Sagði Valgerður þegar samningurinn var undirritaður að um væri að ræða mjög merkilegan atburð enda væri þetta stærsta einkavæðing Íslandssögunnar.

Helstu atriði kaupsamningsins eru þau að afhending hlutabréfanna verður tvískipt. Annars vegar 33,3% hlutafjár í kjölfar undirritunar kaupsamningsins og að fengnu samþykki Fjármálaráðuneytisins og hins vegar 12,5% í desember 2003. Núvirt meðalgengi hlutabréfa í viðskiptunum er 3,91 og kaupverð verður að fullu greitt í Bandaríkjadölum. Eftir þessi viðskipti verður eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum 2,5%.

Í kaupsamningnum eru ákvæði um takmarkaða verðaðlögun ef þróun tiltekinna efnahagsliða verður önnur en gengið var út frá í áætlunum sem lágu til grundvallar við undirritun samkomulags aðila frá 18. október. Ekki verður ljóst fyrr en á síðari hluta 2003 hvort þessi ákvæði hafa áhrif á endanlegt kaupverð.

Í tilkynningu frá Samson segir að vegna frétta síðustu daga um mismunandi mat kaupenda og seljenda á tilteknum útlánum bankans vilji kaupandinn taka fram að seljandi, þ.e. ríkið, hafi ábyrgst farsæla lausn þeirra mála sem óvissa ríki um. Kaupverðið sé það sama og tilgreint var í október sl. Samson hafi lýst því yfir að andvirði vafasamra krafna verði endurfjárfest í bankanum í formi hlutafjár og verði það öllum hluthöfum Landsbankans til hagsbóta, en um 14.500 einstaklingar og fyrirtæki eru í hópi þeirra.

Þá vill Samson taka fram að í samningum sé skýrt ákvæði um að nái S-hópurinn eða annar aðili í hans stað, hagstæðari greiðslukjörum um kaup á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. áskilji Samson sér rétt til að endurskoða kaupsamninginn um hlut ríkisins í Landsbankanum.

Geir H. Haarde fjármálaráðherra sagði við mbl.is eftir undirritunina að mikilvægum áfanga væri náð með þessum samningi og stórt skref stigið í einkavæðingarferlinu. Vonir stæðu til að hægt verði að ljúka sölu bankanna fyrir lok kjörtímabilsins og þar með lyki afskiptum ríkisins af ríkisbankastarfsemi.

„Þar fyrir utan losar þetta um heilmikla fjármuni sem almenningur á. Það er okkar verkefni og skylda að fara vel með það fé. Við munum verja því að stærstum hluta til að greiða niður skuldir ríkissjóðs en einnig hugsanlega að einhverju leyti til að flýta fyrir uppbyggingu á innviðum eða grunngerð samfélagsins, samgöngum eða öðru slíku en aðallega til að búa í haginn fyrir framtíðina," sagði Geir.

„Þetta er sérkennileg tilfinning að koma að svona rekstri en jafnframt ótrúlega spennandi," sagði Björgólfur Guðmundsson. „Það fylgir þessum kaupum auðvitað gríðarleg ábyrgð, að taka að sér þennan banka, gömlu og virðulegu stofnun, og halda uppi því góða nafni sem bankinn hefur áunnið sér. Þetta eru sannarlega óvenjuleg áramót."

Björgólfur sagði að ekki yrðu gerðar breytingar strax á rekstri en kaupendurnir myndu taka sér góðan tíma til að skoða reksturinn. „En það er auðvitað eitthvað sem við teljum okkur hafa fram að færa og sem mun hafa breytingar í för með sér," sagði Björgólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK