Starfsmenn Icelandair taka farþega að sér

Átakið er hluti af alþjóðlegri markaðssókn fyrirtækisins.
Átakið er hluti af alþjóðlegri markaðssókn fyrirtækisins. Mynd/Icelandair

Nýjasta markaðssókn Icelandair felur í sér að starfsmenn fyrirtækisins, og þar á meðal framkvæmdastjórinn, sýna farþegum landið, fara með þá út að borða eða stunda með þeim líkamsrækt. Farþegar panta einfaldlega starfsmann að eigin vali.

Möguleikinn er í boði á erlendum bókunarsíðum Icelandair og er hluti af markaðsherferð félagsins sem kallast „My stopover“. Herferðinni er ætlað að hvetja fólk til þess að staldra við á Íslandi á leið sinni yfir Atlantshafið. 

Aðspurður hvort þetta sé gert að erlendri fyrirmynd segist Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, ekki vita til þess að nokkuð annað flugfélag hafi boðið upp á þennan möguleika. 

„Þessi hugmynd kom upp innanhúss og fékk strax fínar viðtökur,“ segir hann. „Fólki finnst gaman að fá að taka á móti farþegum, sýna þeim landið og draga þá inn í áhugamálin sín,“ segir hann.

Fá greitt fyrir aukavinnuna

Möguleikinn er í boði frá og með deginum í dag og fram til 30. apríl. Eins og staðan er núna geta farþegar valið milli fimmtán starfsmanna í sex flokkum; ævintýri, menning, matur, heilsa, lífstíll eða náttúra. 

Starfsmenn gátu ýmist sótt um að taka þátt eða tilnefnt aðra. Að sögn Guðjóns munu líklega tuttugu til þrjátíu starfsmenn taka þátt í verkefninu þegar á líður. 

Aðspurður segir Guðjón að starfsfólkið fái greitt fyrir aukavinnuna og útlagðan kostnað. Þá verður sett upp ákveðið skipulag þar sem verkefnum verður skipt jafnt milli starfsfólksins.

Framkvæmdastjórinn sýnir æskuslóðir

Fólk í ýmsum stöðum innan fyrirtækisins er að taka þátt; flugmenn, flugfreyjur og starfsfólk á skrifstofu. Þeirra á meðal er Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, sem ætlar að lóðsa farþegum um æskuslóðir sínar á Akureyri.

Að sögn Guðjóns verða þetta ekki hópaferðir, heldur einstaklingsferðir. Farþegar óska einfaldlega eftir ákveðinni dagsetningu og fá svar innan 72 klukkustunda.

Verkefninu var hleypt af stokkunum í morgun og Guðjón segir nokkra farþega þegar hafa skráð sig.

Starfsmenn Icelandair ætla að sýna farþegum landið.
Starfsmenn Icelandair ætla að sýna farþegum landið. mynd/Icelandair
Birkir Hólm, framkvæmdastjóri Icelandair, ætlar að fara með farþega um …
Birkir Hólm, framkvæmdastjóri Icelandair, ætlar að fara með farþega um æskuslóðir sínar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK