Stýrir stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi

Sigurður Óli Ólafsson.
Sigurður Óli Ólafsson. mbl.is/Ófeigur

Í lok júlí lögðu bandarísk samkeppnisyfirvöld blessun sína yfir kaup lyfjarisans Teva á Actavis. Fyrir kaupin var Teva stærsta fyrirtæki heims á sviði samheitalyfja en eftir þau er sameinað fyrirtæki tvöfalt stærra en annað stærsta fyrirtæki heims á þessu sviði. Samheitalyfjahluti Teva mun á næstu 12 mánuðum velta um 16 milljörðum dollara, jafnvirði 1.900 milljarða íslenskra króna. Forstjóri fyrirtækisins er íslenskur lyfjafræðingur, Sigurður Óli Ólafsson, sem að eigin sögn tók fyrir algjöra tilviljun þá stefnu innan lyfjageirans sem leiddi til þess að árið 2014 settist hann í forstjórastól hins alþjóðlega lyfjarisa.

„Ég stefndi á doktorsnám í kjölfar þess að ég útskrifaðist úr lyfjafræði frá Háskóla Íslands árið 1993. Ég vann hjá Sigmundi Guðbjarnasyni, fyrrverandi rektor skólans, við að rannsaka áhrif lýsis á magasár í rottum. Svo áttum við hjónin von á okkar öðru barni og ég þurfti að sækja frekari tekjur vegna þess. Ég sótti því um starf yfirmanns sölu- og markaðsstarfs hjá Omega Farma. Ég fékk starfið og ég hitti rotturnar aldrei aftur. Þar vann ég frá 1994 til 1998 en þá flutti ég mig yfir til Pfizer og við fluttumst búferlum til Bretlands vegna þess. Eftir þrjú ár þar í landi flutti ég mig á vettvangi þess til Bandaríkjanna.“

Tveimur árum síðar hóf íslenska fyrirtækið Actavis starfsemi í Bandaríkjunum og varð Sigurður fyrsti starfsmaður þess þar í landi.

„Ég man að það birtist í Mogganum skemmtileg mynd af höfuðstöðvum Actavis í Bandaríkjunum sem var stærðar háhýsi í Hartford í Connecticut. Við áttum reyndar bara einn glugga en myndin var flott. Við skoðuðum þar ýmis tækifæri og uxum hratt. Ég starfaði hjá fyrirtækinu úti til 2006 en þá kom ég hingað heim og tók við starfi aðstoðarforstjóra. Tveimur árum síðar tók ég við sem forstjóri.“

Enn bauðst Sigurði að flytja sig um set og varð hann yfirmaður samheitalyfjasviðs Watson Pharmaceuticals í Bandaríkjunum árið 2010. Tveimur árum síðar keypti fyrirtækið hans gamla vinnuveitanda og með því hófst samfylgd hans með Actavis öðru sinni. Aðeins tveimur árum eftir þau kaup bauðst honum svo starf sem forstjóri samheitalyfjasviðs Teva.

„Það var ekki sjálfsagt að fara til þessa risastóra samkeppnisaðila, sem stofnaður er í Ísrael árið 1901 og er langstærsta fyrirtækið þar í landi. Ég var búinn að kljást við Teva á markaðnum allan minn feril. Hins vegar var fyrirtækið að ganga í gegnum ákveðna rekstrarerfiðleika og í því fannst mér felast ákveðin áskorun og jafnframt tækifæri. Þarna þurfti að taka til hendinni og snúa stöðunni við. Á þeim tíma voru tekjur samheitalyfjasviðsins sem ég er forstjóri fyrir um 10 milljarðar dollara og starfsemin í um 70 löndum vítt og breitt um heiminn og starfsmenn samheitalyfjahluta Teva um 15.000 talsins.“

Mikill rekstrarárangur á skömmum tíma

Með samstilltu átaki tókst teyminu sem Sigurður setti saman að snúa stöðunni Teva í hag. Rekstrarhagnaðarhlutfallið fór úr 16,7% í 21,9% á fyrsta heila árinu og í lok árs 2015 var það komið í rúm 28%.

„Við náðum að bæta afkomuna um 12 prósentustig. Þá vöknuðu spurningar um hvernig við gætum vaxið frekar og einhverjum kann að þykja það sérstakt í ljósi þess að Teva er stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi. En hagkvæmni í þessum rekstri skiptir gríðarlegu máli, fólk er að taka sömu lyfin út um allan heim og það er gríðarleg hagkvæmni í stærri framleiðslu. Svo er samkeppnin einnig að verða sífellt meiri. Ég þekkti auðvitað Actavis mjög vel og við réðumst í það verkefni að kaupa fyrirtækið. Við tilkynntum kaupin 27. júlí í fyrra og þá tók við undirbúningur sameiningarinnar og samþykktarferli hjá samkeppnisyfirvöldum. Við þurftum að sækja um þá heimild í mörgum löndum og það tók langan tíma. Lengstan tíma tók það þó í Bandaríkjunum þar sem það tók eitt ár upp á dag. Fyrsti dagur sameinaðs félags var svo 2. ágúst.“

Við þau tímamót hófst þriðja vegferð Sigurðar og Actavis, en nú undir nafni Teva. Og þó að fyrirtækið sé hið stærsta sinnar tegundar í heiminum er markaðshlutdeild þess um það bil 6-7% af 250 milljarða dollara heimsmarkaði. Í því samkeppnisumhverfi, þar sem mörg stór markaðssvæði eru enn óplægður akur, hyggst Sigurður sýna 5% vöxt í tekjum á ári.

„Sumum finnst það ekki mikið en það er töluvert þegar litið er til þess að það felur í sér vöxt upp á ríflega 94 milljarða króna árlega. Þá verður einnig að hafa í huga að samheitalyf sem nú eru á markaði lækka að jafnaði um 5% í verði á ári hverju. Það veldur því að við verðum að sýna um 10% vöxt á grundvelli nýrra lyfja sem við komum með á markað til að halda áætlunum okkar. Þar liggur áherslan og stóru áskoranirnar.“

Eftir kaupin á Actavis er heildarvirði Teva metið á um það bil 90 milljarða dollara eða 10.500 milljarða króna. Hluthafar þess eru að mestu bandarískir en höfuðstöðvar þess eru í Tel Aviv og það er skráð á markað í Bandaríkjunum og Ísrael. Sigurður segir að kaupin auki nokkuð á skuldsetningu Teva en að hún sé í sögulegu samhengi þessa markaðar ekki ýkja mikil.

„Eftir kaupin á Actavis eru skuldirnar um fjórum sinnum EBITDA en við reiknum með að í lok árs 2018 verðum við komin í hlutfallið 2,5 sinnum EBITDA. Félagið hefur gríðarlegt sjóðstreymi af rekstrinum og við stefnum að því að greiða niður skuldir með helmingi þess á komandi misserum. Lánskjör eru sömuleiðis hagstæð nú um stundir. Við fórum í skuldabréfaútboð fyrir tveimur vikum upp á 20 milljarða dollara. Fjárfestar skráðu sig fyrir 120 milljörðum dollara og því var eftirspurnin sexföld. Meðalvextir sem við fengum á útboðið voru 2,3% og meðallengdin átta og hálft ár.“

Samheitalyfin breyta miklu

Sigurður segir að hugarfar fólks gagnvart samheitalyfjum hafi breyst mikið á undanförnum árum. Áður fyrr hafi þetta þótt einskonar sjóræningjastarfsemi og að samheitalyfjafyrirtæki hafi haft það eitt að markmiði að taka markaðshlutdeild af frumlyfjafyrirtækjum og leggja takmarkað í að lækka lyfjakostnað á sama tíma. Raunin er þó allt önnur.

„Samheitalyf eru hágæðalyf á hagstæðu verði sem oft á tíðum gefa fleiri sjúklingum tækifæri til að fá bestu meðferð. Það eru miklu fleiri sem hafa efni á lyfjum þegar einkaleyfi á þeim rennur út. Þetta sjáum við til dæmis í Austur-Evrópu. Í Rússlandi, til að mynda, taka ný samheitalyf við krabbameini sáralítið af markaðshlutdeild frumlyfjanna. Það kemur til af því að í Rússlandi borgar fólk lyf sín að fullu og því eru stórir hópar fólks, sem einfaldlega geta ekki keypt frumlyfin. Þessi framleiðsla eykur því aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu og meðferð við alvarlegum sjúkdómum. Það er mikilvægt í heimi þar sem stór hluti mannkyns fær ekki stuðning hins opinbera við lyfjakaup.“

Hann segir þó að afstaðan til samheitalyfja hafi breyst nokkuð á síðustu árum. Nefnir hann í því sambandi breytt viðhorf meðal almennings í Japan.

„Þegar ég fór fyrst að starfa á markaðnum þar í landi fyrir um áratug voru samheitalyf álitin að vissu leyti annars flokks lyf og fyrir fátækt fólk. Japan er annar stærsti lyfjamarkaður í heimi en hlutdeild samheitalyfja á þessum tíma var mjög lítil. Sjúklingar vildu hreinlega ekki biðja um samheitalyf í apótekunum því þá litu þeir út sem fátæklingar í augum þeirra sem heyrðu til. Sjúklingum var því boðið upp á sérstakt kort, á stærð við kreditkort, sem þeir gátu svo rétt yfir afgreiðsluborðið með lyfseðlinum og þar með lýst því yfir að þeir vildu kaupa samheitalyfið. Í dag er þetta allt annað mál og samheitalyfin eru viðurkennd í sama gæðaflokki, og hlutdeild samheitalyfja í Japan í dag er meiri en á Íslandi.“

Viðtalið við Sigurð Óla má lesa í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út á fimmtudag

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK