Ótækt að 28 manns geti lokað landinu

„Maður er ekki lengur reiður, maður er bara sorgmæddur. Að einhverjum skuli bara detta þetta í hug á þessum tímapunkti í ljósi þess sem á undan er gengið. Ég hélt að þeir sem starfi í flugi og ferðaþjónustu á Íslandi væru samherjar í þessu en það er alls ekki þannig.“

Þessum orðum fer Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair um stöðuna sem upp er komin vegna verkfallsaðgerða flugumferðarstjóra sem staðið hafa yfir með hléum allt frá þriðjudeginum í síðustu viku. Hann segir kerfi Icelandair stórt og að aðgerðirnar í dag og á miðvikudaginn næsta muni hafa enn meiri áhrif en aðgerðir liðinnar viku. Þetta hafi áhrif á meira en 140 flug og 23 þúsund farþega.

Bogi Nils er gestur Dagmála í fyrramálið en viðtalið í heild sinni verður aðgengilegt áskrifendum Morgunblaðsins kl. 06:00 í fyrramálið.

Undarlegur samningur

Hann segir undarlegt að flugumferðarstjórar og Isavia hafi gert með sér samning um að vinnudeilur komi harðar niður á íslenskum flugfélögum en öðrum.

„Þetta er mjög stórt svæði og mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga. En aðgerðunum er beint sérstaklega að þessum íslensku félögum og flugumferðarstjórar eru með sérstakan samning um að trufla ekki flugið hérna yfir hafið í gegnum íslenska kerfið. Það er samkomulag milli flugumferðarstjóra og Isavia og flugumferðarstjórar fá greitt fyrir það álag að beina ekki verkfallsaðgerðum gegn því flugi, þ.e. því flugi sem er í samkeppni við okkur t.d. í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku.“

Verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra hafa mikil áhrif á starfsemi Icelandair og stefnir …
Verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra hafa mikil áhrif á starfsemi Icelandair og stefnir í að kostnaðurinn nemi um milljarði króna beint fyrir félagið. mbl.is/Hörður Sveinsson

Þannig að Isavia gerir samning við sína starfsmenn um að ef þeir fara í verkfallsaðgerðir að þá beini þeir þeim sérstaklega gegn ykkur?

„Ja í rauninni. Ef þeir myndu láta þessi verkföll gilda allan daginn, allan sólarhringinn, þá hefðu þeir náttúrulega meiri áhrif á erlendu flugfélögin sem eru að koma hingað til lands.“

En það er samningur um að gera það ekki?

„Það er samningur um að fara ekki í verkfall á yfirfluginu sem hefur ekki viðkomu á Íslandi. En við erum í gríðarlegri samkeppni, bæði Icelandair og Play, þessi flugfélög sem eru að reka hérna þetta tengimódel gegnum Keflavík. Við erum í gríðarlegri samkeppni við þá sem eru að fara beint yfir hafið. Það er mjög harður samkeppnismarkaður og krefjandi aðstæður fyrir okkur sem flugfélög að keppa við flest stærstu flugfélög Evrópu og Norður-Ameríku. Og oft þegar þeir eru að fljúga yfir hafið á milli heimsálfanna þá fljúga þeir hérna í gegnum íslenska kerfið. En það er samkomulag um að fara ekki í verkföll á því sviði en verkföllin mega beinast gegn til og frá Íslandi og eins og þau eru stillt núna af þá beinast þau gegn íslensku flugfélögunum.“

Hljóti að vera mistök

Hvernig tilfinning er það að Isavia, sem þið eruð nú sennilega stærsti viðskiptavinurinn hjá, semji á þessum nótum?

„Ég trúi ekki öðru en að menn hafi ekki alveg hugsað þessi mál til enda. Að þessi staða sem nú er komin upp gæti komið upp og þetta er staða sem aðilar hljóta að velta fyrir sér til framtíðar að geti ekki gengið upp, þ.e. að það sé eingöngu hægt að fara í verkfallsaðgerðir sem beinast gegn íslensku félögunum að langmestu leyti. Á markaði sem þau eru að keppa á og mjög mikilvægt náttúrulega fyrir Isavia og flugumferðarstjóra að íslensku flugfélögunum gangi vel. Icelandair er bara hálfgerður grunnur að þeirra vinnu og atvinnuöryggi.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK