Það er fátt mikilvægara í gönguferðum en góðir gönguskór. Mikilvægt er að gönguskór séu af réttri stærð, passi vel á fótinn, séu vatnsheldir og gefi nægjanlegan stuðning. Það er heilmikil ákvörðun að kaupa sér gönguskó í dag enda geta þeir kostað allt að 60.000 krónum. Margir hafa því frestað kaupum á nýjum skóm en ekki er ráðlegt að gera það framúr hófi.
Skór hafa þróast töluvert á síðustu árum og áratugum. Fyrstu skórnir sem ég gekk á voru þykkir og þungir en nær ódrepandi. Í dag eru flestir skór mun þægilegri og léttari en á mót eru þeir oft ekki eins endingargóðir. Það borgar sig til lengri tíma að velja vandaðri skó fremur en ódýra skó. Aðal atriðið er að manni líði vel í skónum og þeir uppfylli þær þarfir manns. Verðmiðinn einn og sér segir ekki alla söguna. Fætur fólks eru mjög mismunandi og hver og einn verður að finna hvað hentar best. Það getur verið nokkuð erfitt enda getur stutt mátun í verslun varla sagt til um hvernig manni líður í fótunum eftir dagsgöngu í skónum. Það hjálpar þó mikið að fá skó í heimlán og máta þá í ró og næði heima í stofu.