Haraldur Örn - haus
28. apríl 2010

Drykkir og fjallgöngur

HvannadalshnukurÍ fjallgöngum verður líkaminn fyrir miklu vökvatapi. Það fer mikil orka í að ganga upp í móti og við það tapast vökvi með svita. Göngurnar geta oft verið langar. Til dæmis tekur ganga á Hvannadalshnúk um 14 tíma. Á þeim tíma brennir líkaminn mikilli orku og tapar miklum vökva.

Vökvaskortur er mjög hættulegur líkamanum og dregur mjög úr orku. Þess vegna er það eitt það mikilvægasta sem fólk verður að hafa í huga í fjallgöngum er að drekka vel. Passa þarf að drekka vel daginn fyrir göngu og rétt áður en lagt er af stað. Þannig er tryggt að líkaminn sé ekki þegar í vökvaskorti við upphaf göngunnar. Síðan er mikilvægt að drekka reglulega alla gönguna, helst á klukkutíma fresti.

Hvað þarf þá að hafa mikinn vökva með sér í lengri göngur eins og á Hvannadalshnúk? Reynslan sýnir að það getur verið nokkuð breytilegt hversu mikinn vökva fólk þarf á slíkri göngu. Almennt er miðað við 2 til 3 lítra á mann. Þeir sem svitna mikið og þurfa almennt mikinn vökva á göngu þurfa að hafa með sér 3 lítra en þeir sem svitna almennt lítið og eru sparneytnir í þessum efnum geta komist af með 2 lítra. Til að vinna á móti öllu vökvatapinu þyrfti í raun að hafa meira með sér en fólk á oft erfitt með að innbyrða meiri vökva en þetta auk þess sem þyngd bakpokans verður mikil ef meiri vökvi er hafður meðferðis.

Það er ótrúlega algengt að fólk drekki lítið sökum þess að það vill ekki þurfa að kasta af sér vatni á göngunni. Þetta er mjög rangur hugsanaháttur og í raun stórhættulegur. Þegar vökvaskorturinn er orðinn mikill, hættir líkaminn að starfa eðlilega og orkan hrynur. Það ber því að bægja slíkum hugsunum frá og hugsa vel um eigin heilsu með því að næra líkamann af vökva.

Hvað á þá að drekka? Drykkir geta bæði verið heitir á brúsa og kaldir. Mér finnst gott að hafa 1 lítra af heitu á brúsa og 1 lítra af köldum drykkjum. Ef mjög heitt er í veðri hef ég þó eingöngu kalda drykki. Heitir drykkir geta til dæmis verið kakó eða te. Kaffi er hins vegar alls ekki gott og ráðlegg ég frá því að hafa það meðferðis á brúsa. Kaldir drykkir geta til dæmis verið vatn, orkudrykkir, ávaxtasafi og kókómjólk. Orkudrykkir eru mjög góðir og hef ég þá yfirleitt meðferðis. Ég vil þó ekki hafa meira en helminginn af vökvanum í formi orkudrykkja þar sem þeir fara ekki vel í maga í of miklum mæli. Þá getur verið gott að þynna orkudrykki nokkuð þar sem þeir eru almennt óþarflega sterkir.