Það er merkilegt hversu lítill munur er á gönguklæðnaði eftir árstíðum. Við búum við það á Íslandi að þurfa alltaf að vera viðbúin hvaða veðri sem er, jafnt að sumri sem vetri. Þannig myndi ég til dæmis taka mjög svipaðan fatnað með mér í gönguferð að sumri á Hornstrandir og vetrarferð á Heiðarhorn.
Í grunninn erum við að tala um þrjú lög af klæðnaði. Innst er nærfatnaður úr ull eða vönduðu gerviefni. Millilagið getur verið flíspeysa og göngubuxur. Ysta lagið er skelin sem er vind- og vatnsheldur fatnaður úr öndunarefni. Í raun er þetta ekki mikill klæðnaður fyrir kalt veður en á göngu verður mér nánast aldrei kalt í þessum fatnað. Í vetrarferðum tekur maður stundum létta dúnúlpu með til að vera í á kvöldin eða ef maður gerir ráð fyrir einhverri kyrrstöðu að ráði. Fyrir sumargönguna er ullarnærfatnaðurinn oft of heitur og bætist því stuttermabolur og stuttbuxur við fyrir góðu dagana.
Það er því merkilega auðvelt að pakka fatnaði fyrir gönguferðir á Íslandi. Þetta er í grunninn alltaf sami fatnaðurinn sem fer í bakpokann.