Haraldur Örn - haus
Þú ert hér: Haraldur Örn > Garmin Oregon 550
9. apríl 2010

Garmin Oregon 550

oregonAð undanförnu hef ég verið að prófa nýtt GPS, Garmin Oregon 550. Tækið tilheyrir nýrri kynslóð tækja með snertiskjá og fullt af möguleikum svo sem vegleiðsögn og möguleika að sjá kort í þrívídd. Í tækinu er myndavél og hægt er að tengja púlsmæli við það svo eitthvað sé nefnt.

Það fyrsta sem vekur athygli er hversu bjartur skjárinn er og auðvelt að skoða landakortið í tækinu. Nýjar skyggingar gefa kortinu aukið líf og auðvelt er að draga það til og frá. Tækið bregst fljótt við þegar unnið er með kortið og greinilegt að afkastagetan í minni og úrvinnslu er mjög góð.

Allir valmöguleikar í aðalvalmyndinni eru aðgengilegir og stuttan tíma tekur að læra á helstu stillingar. Eins og í öðrum tækjum nota ég langmest kortið (Map) en næst mest nota ég sögulegu upplýsingarnar (Trip computer).

Snertiskjárinn er nýjung. Það kom mér á óvart hversu auðvelt er að vinna með hann. Ég hef prófaði að nota tækið með hönskum og hefur virkað ágætlega. Ef þykkir vettlingar eru á höndum þarf augljóslega að taka þá af sér til að nota tækið. Ef kveikt er á tækinu í vasa eða farangri er mikilvægt að læsa skjánum til að óumbeðnar aðgerðir fari ekki í gang. Óþarfi er að taka læsinguna af tækinu í hvert skipti sem litið er á það. Þægilegt er til dæmis að vera með kortið opið og er þá hægt að grípa tækið úr vasa og líta snöggt á staðsetninguna án þess að taka læsinguna af.

Tækið tekur tvær AA rafhlöður. Rafmagnsþörfin er meiri í þessum tækjum en í eldri tegundum enda meiri vinnsla í gangi. Framleiðandi mælir með að notaðar séu NiMH hleðslurafhlöður eða Lithium rafhlöður. Í Vatnajökulsferð sem ég fór nýlega notaði ég einmitt slíkar rafhlöður og entust þær samtals í rúma tvo daga eða á bilinu 16 til 20 klukkustundir í stöðugri notkun.

Samantekt
Kostir - Bjartur og stór skjár. Einfalt í notkun og fljótt að vinna. Kortið nýtist mun betur en í eldri tækjum. Auðvelt að draga það til og skoða. Fullt af nýjum valmöguleikum.
Gallar - Taka þarf þykka vettlinga af höndum til að nota snertiskjá. Rafhlöður endast styttra en í eldri tækjum.