Að undanförnu hef ég verið að prófa nýtt GPS, Garmin Oregon 550. Tækið tilheyrir nýrri kynslóð tækja með snertiskjá og fullt af möguleikum svo sem vegleiðsögn og möguleika að sjá kort í þrívídd. Í tækinu er myndavél og hægt er að tengja púlsmæli við það svo eitthvað sé nefnt.
Það fyrsta sem vekur athygli er hversu bjartur skjárinn er og auðvelt að skoða landakortið í tækinu. Nýjar skyggingar gefa kortinu aukið líf og auðvelt er að draga það til og frá. Tækið bregst fljótt við þegar unnið er með kortið og greinilegt að afkastagetan í minni og úrvinnslu er mjög góð.
Allir valmöguleikar í aðalvalmyndinni eru aðgengilegir og stuttan tíma tekur að læra á helstu stillingar. Eins og í öðrum tækjum nota ég langmest kortið (Map) en næst mest nota ég sögulegu upplýsingarnar (Trip computer).
Snertiskjárinn er nýjung. Það kom mér á óvart hversu auðvelt er að vinna með hann. Ég hef prófaði að nota tækið með hönskum og hefur virkað ágætlega. Ef þykkir vettlingar eru á höndum þarf augljóslega að taka þá af sér til að nota tækið. Ef kveikt er á tækinu í vasa eða farangri er mikilvægt að læsa skjánum til að óumbeðnar aðgerðir fari ekki í gang. Óþarfi er að taka læsinguna af tækinu í hvert skipti sem litið er á það. Þægilegt er til dæmis að vera með kortið opið og er þá hægt að grípa tækið úr vasa og líta snöggt á staðsetninguna án þess að taka læsinguna af.
Tækið tekur tvær AA rafhlöður. Rafmagnsþörfin er meiri í þessum tækjum en í eldri tegundum enda meiri vinnsla í gangi. Framleiðandi mælir með að notaðar séu NiMH hleðslurafhlöður eða Lithium rafhlöður. Í Vatnajökulsferð sem ég fór nýlega notaði ég einmitt slíkar rafhlöður og entust þær samtals í rúma tvo daga eða á bilinu 16 til 20 klukkustundir í stöðugri notkun.
Samantekt
Kostir - Bjartur og stór skjár. Einfalt í notkun og fljótt að vinna. Kortið nýtist mun betur en í eldri tækjum. Auðvelt að draga það til og skoða. Fullt af nýjum valmöguleikum.
Gallar - Taka þarf þykka vettlinga af höndum til að nota snertiskjá. Rafhlöður endast styttra en í eldri tækjum.