Haraldur Örn - haus
Þú ert hér: Haraldur Örn > Göngustafir
12. apríl 2010

Göngustafir

Aconcagua-5Göngustafir þykja nú sjálfsagður búnaður til fjalla. Það eru þó ekki langt síðan þeir fóru að njóta mikilla vinsælda. Þegar ég byrjaði að stunda fjallgöngur voru stafir aðeins notaðir ef skíði voru undir fótum. Ég var nokkuð lengi að taka þá í sátt en nú skil ég þá ekki við mig í ákveðnum fjallgöngum. Ég nota göngustafi helst þar sem er nokkur bratti. Sérstaklega kann ég vel við þá í snjóbrekkum. Þannig nota ég þá alltaf á Hvannadalshnúk svo dæmi sé tekið. Mér finnst þeir nýtast vel í slíkum göngum til að dreifa álaginu og hlífa baki og hnjám. Hins vegar nota ég ekki göngustafi ef undirlagið er ekki bratt og nokkuð grýtt. Þá vilja stafirnir frekar flækjast fyrir og festast milli steina.

Það er úr ýmsu að velja þegar göngustafir eru keyptir og verðmunurinn töluverður. Dýrari stafirnir eru léttari og oft með dempara. Ódýrari stafir gera sama gagn en endast oft ekki eins vel. Mér finnst skipta máli að stafirnir séu nokkuð léttir en um leið sterkir. Ég nota ekki dempara mikið og finnst þeir því ekki skipta miklu máli. Mikilvægt er að kringlurnar við broddinn séu með góðum frágangi því ekkert er leiðinlegra en þegar þær detta af í snjóbrekku. Þá stingast stafirnir djúpt í snjóinn og þeir verða algerlega gagnslausir.