Það hefur sinn sjarma að fara út að ganga í rok og rigningu þó að flestir kjósi fremur sólina. Við búum í landi þar sem lægðagangur leikur megin hlutverk í veðrinu og því er best að sætta sig við rok og rigningu af og til. Síðustu mánuði hefur veðrið leikið við okkur og það er því bara frískandi að fá smá vætu í andlitið.
Sumir staðir eru alltaf jafn fallegir, hvernig sem viðrar. Botnsdalur í Hvalfirði er dæmi um stað sem óhætt er að mæla með þó að veður sé vott. Gaman er að ganga með Botnsánni og skoða Glymsgilið. Auðveldast er að fara upp með gilinu að vestan. Gilið sést þó betur austan megin en þar þarf að fara varlega enda er stígurinn stundum nokkuð tæpur við gljúfurbarminn. Er því ekki ráðlegt að fara þar þegar bleyta er mikil eða hálka.