Síðasta haust fékk ég óvænt símatal frá gömlum vini mínum, Børge Ousland. Ég kynntist honum þegar ég var að undirbúa Norðurpólsleiðangurinn minn á sínum tíma og höfum við ávallt haldið sambandi síðan. Þetta er mikil kempa enda hefur hann afrekað meira en nokkur annar þegar kemur að pólferðum. Meðal fjölmargra afreka hans er að ganga einn síns liðs yfir Suðurheimskautið (1996-1997) og Norðurheimskautið (2001). Meðal nýlegra leiðangra hans er ferð árið 2006 sem farin var í fótspor Fram leiðangurs Friðþjófs Nansens frá Norðurpólnum til Franz Josefs Lands.
Børge hafði áhuga á að ganga yfir Vatnajökul og eftir gott spjall var áveðið að við myndum setja ferð á dagskrá og ganga jökulinn saman ásamt Erling Kagge sem einnig er pólfari og fjallamaður. Erling hefur meðal annars gengið á Norðurpólinn, Suðurpólinn og Mt. Everest. Leiðin var ákveðin frá Jökulheimum og að Snæfelli.
Þeir félagar komu með flugi frá Oslo um kaffileytið laugardaginn 13. mars og héldum við beint af flugvellinum inn í Hrauneyjar. Þar gátum við skipulagt búnað og vistir fyrir ferðina. Daginn eftir ókum við inn í Jökulheima þar sem gangan hófst við jökuljaðarinn. Það var vinur minn Guðmundur Eyjólfsson sem sá um að aka okkur að jöklinum. Gangan hófst um hádegi á sunnudeginum. Það var mjög milt veður og gott færi þegar við gengum af stað upp Tungnaárjökul. Við gengum nokkuð greitt í tvær langar göngulotur og skilaði það okkur 20 kílómetrum og létum við það gott heita þann daginn. Børge hafði komið með tjaldið fyrir ferðina sem var mjög sterkt en fremur lítið. Þetta var þriggja manna tjald en samt sem áður gátum við ekki allir legið á bakinu samtímis. Ég er vanur að hafa rýmra um mig í tjaldi en öllu má venjast. Það var gaman að spjalla við þá félaga um kvöldið og fara yfir ýmsar gamlar sögur og nýjar.
Annan dag göngunnar birti mikið til og var sól og gott skyggni um miðjan daginn. Norðmennirnir nutu sín vel og það var sprett úr spori. Við höfðum ágætt útsýni um jökulinn og sáum meðal annars Þórðarhyrnu. Síðar um daginn þykknaði í lofti en við náðum þó að fá ágætt útsýni á Öræfajökul. Þegar við nálguðumst skálann á Grímsfjalli var komin þoka og tók ég smá krók til að sýna þeim félögum katlana sem eru þar í jöklinum. Fannst þeim þetta mikil upplifun að sjá hveragufuna stíga upp um götin. Því miður var ekkert útsýni yfir Grímsvötnin. Við komum svo að skála Jöklarannsóknarfélagsins á Grímsfjalli og voru þá 26 kílómetrar að baki þennan daginn. Við komum okkur fyrir í skálanum og eftir nokkra hvíld fórum við í hið víðfræga og margrómaða gufubað. Þetta var að sjálfsögðu mikil upplifun fyrir félaga mína sem höfðu aldrei kynnst öðru eins.
Það var alger blinda og snjókoma þegar við héldum frá Grímsfjalli þriðja göngudaginn. Vindur var af suðaustri en ekki mjög sterkur. Við gengum eftir GPS tæki og sá fremsti maður ekkert fyrir framan sig vegna blindunnar. Við héldum samt vel áfram og gengum greitt. Klukkan sex létti skyndilega til og við sáum Kverkfjöll vel og aðeins glitti í Snæfell. Þetta lífgaði verulega upp á daginn og bættum við aðeins við göngutímann til að njóta útsýnisins. Þegar við létum staðar numið höfðum við lagt 35 kílómetra að baki frá Grímsfjalli og vorum því komnir inn á miðjan Vatnajökul. Við gengum vel frá öllu utandyra og stöguðum tjaldið niður. Síðan var skriðið inn og hófust þá hefðbundin tjaldstörf svo sem að bræða snjó og útbúa kvöldmatinn.
Fjórða göngudaginn var aftur alger blinda á jöklinum og nokkur snjókoma. Fremsti maður varð áfram að ganga eftir GPS tæki enda sást ekkert framundan nema hvítt tómið. Færið var áfram nokkuð gott þó það þyngdist vissulega aðeins við snjókomuna. Vindur var mjög hægur af austri. Gönguloturnar tóku við hver og annarri og í lok dags höfðum við lagt að baki 33 kílómetra.
Við vissum að fimmti göngudagurinn yrði sá síðasti enda var farið að styttast verulega niður af jöklinum. Veður var mjög gott og eitthvað skyggni á jöklinum þó að útsýni væri ekkert. Mér fannst leitt að við fengjum ekki að sjá tilkomumikið Snæfellið taka á móti okkur en eftir því sem nær dró jökuljaðrinum þéttist þokan. Eftir tvær kröftugar göngulotur náðum við niður af jöklinum. Við fögnuðum áfanganum og tókum nokkrar myndir. Jeppamaðurinn sem hafði tekið að sér að sækja okkur hafði tafist vegna þokunnar og héldum við því til móts við hann í átt að Snæfellsskála. Þegar við vorum komnir utan í Bjálfafell mættum við jeppanum og var göngunni þar með lokið. Við höfðum lagt 140 kílómetra að baki á fimm dögum en fyrsti og síðasti dagurinn voru í raun hálfir göngudagar. Virkur göngutími í ferðinni voru 31 klukkustund.
Var nú ekið niður á Egilsstaði. Eftir góðan kvöldverð komumst við í kvöldflug til Reykjavíkur. Við vorum allir mjög sáttir við ferðina. Ferðaáætlunin hafði gengið upp í alla staði og vorum við degi á undan áætlun. Veður og færi hafði leikið við okkur allan tímann en skyggni hefði vissulega getað verið betra.
Hægt er að skoða fleiri myndir úr ferðinni á heimasíðu Fjallafélagsins.