Það þarf ekki að stunda fjallgöngur eða fjallaklifur lengi til að hafa staðið frammi fyrir spurningunni um hvort rétt sé að snúa við. Þetta er nefnilega spurning sem allir fjallamenn standa reglulega frammi fyrir. Ákvörðunin getur vafist fyrir mönnum og erfitt að gera upp hugann hvort haldið skuli áfram eða horfið frá. Stundum geta slíkar hugleiðingar verið ástæðulausar og rétt að vinna bug á þeim, en í öðrum tilvikum er góð og gild ástæða að baki.
Það er áhugavert að velta fyrir sér hvernig rétt sé að taka ákvarðanir við erfiðar aðstæður. Í mjög stuttu máli og með nokkurri einföldun þá nota ég þá aðferð að spyrja sjálfan mig einnar spurningar og byggi svarið á henni. Spurningin hljómar svona: Hefur eitthvað komið upp sem gefur til kynna aukna áhættu eða ógn? Ef svarið er nei þá held ég áfram. Ef svarið er já þá sný ég við, enda er þá alltaf hægt að koma aftur og klára verkefnið þegar aðstæður eru hagstæðari.
Eins og ég nefndi þá er þarna um mikla einföldun að ræða þar sem fleiri þættir blandast inn í matið á stöðunni hverju sinni en ég mun fjalla nánar um það síðar.