Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Hlaða batterín
7. mars 2010

Hlaða batterín

Í dag eru þrjár vikur til stefnu þar til ég keppi í minni fyrstu Ironman keppni í Ástralíu. Á næstunni skrifa ég að mestu um það en mun svo með tímanum fjalla meira um heilræði og þjálfun tengt styttri vegalengdum, sundi, hjólreiðum eða hlaupum.  

aiga_stairs_down_inv_968096.gif

Eftir 5 mánaða strembnar æfingar er komin tími til að  minnka æfingar svo ég verði óþreytt og í topp formi á keppnisdag. Þetta tímabil er kallað ,,að létta" á íslensku eða "tapering" á ensku.  Að létta reynist mörgum íþróttamönnum erfitt en það er mikil list að minnka æfingar án þess að missa niður þol eða líða eins og maður sé að missa niður þol. Ef eitthvað er þá gera byrjendur þetta öfugt eða eins og þeir séu að læra fyrir próf og æfa gjarnan stíft síðustu 1-2 vikurnar.  Slíkt er ávísun á meiðsli  eða í besta falli þreytu og vanlíðan á keppnisdag. Þessar síðustu vikur snýst allt um það hafa trú að því sem þú hefur gert mánuðina á undan og freistast ekki til að halda áfram að troða inn  einu löngu hlaupi í viðbót.  Það er misjafnt eftir íþróttagreinum og einstaklingum hversu lengi maður þrepar sig niður en sú viðmiðun sem ég þekki í úthaldsíþróttum er  3 vikur fyrir maraþon og Ironman, 2 vikur fyrir hálf maraþon og hálfan járkarl og 7-10 dagar fyrir styttri vegalengdir og 10 km hlaup. Þetta fer einnig eftir einstaklingum, aldri, íþróttagreinum, meiðslum ofl. Til dæmis þurfa eldri eða meiddir íþróttamenn gjarnan fleiri daga en aðrir.

Samkvæmt rannsóknum er  þremur og tveimur vikum fyrir mót best að gera 80% af fjölda æfinga, en hver  æfing á að vera amk helmingi styttri og aðeins hraðari/erfiðari  en venjulega. Mikilvægt er að æfingar séu nógu erfiðar svo þú missir ekki þol en samt ekki þannig að þú fáir strengi. Þannig heldurðu  styrk en hvíldin fæst með því að hafa færri og styttri æfingar. Hugtakið ,,létta" er því pínu villandi á íslensku þar sem æfingarnar eru sem slíkar ekki léttari heldur eins og segir færri og styttri.  

Vikuna fyrir mót gilda önnur lögmál og þá þarftu að spila þetta eftir eyranu. Ef mér líður vel og finnst ég til í slaginn þá geri  ég 4 æfingar 20-30 mín í senn,  3-5 x 90 sek. spretti. Dagurinn sem  er 2 dögum fyrir mót tek ég alveg í hvíld.  Það  er hægt ,,að létta"  3-4 yfir árið fyrir mikilvægustu mótin. Keppnisfólk sem keppir mörgum sinnum á ári þarf því að forgangsraða hvaða mót eru mikilvægust,  þrepa sig niður fyrir þau en halda óbreyttum æfingum fyrir restina tilað missa ekki styrk.  Ég fagna þessu tímabili og ætla að nýta það vel til að sinna fjölskyldunni og andlegu hliðinni.