Lífið er fullt af uppákomum sem setja strik í æfingar og plön. Ef þér líður illa eða ef eitthvað bjátar þá er mikilvægt að taka það inní reikninginn og hlusta meira en venjulega á líkamann. Það þarf ekki að leggjast í kör heldur bara vera meðvitaður um líðanina og ekki vera rúðustrikaður þegar kemur að því að fylgja æfingaáætlun.
Æskuvinkona mín Elísabet hefur verið mikið veik með krabbamein og hún dó núna á fimmtudaginn síðastliðinn bara 36 ára gömul. Ég hef haft miklar áhyggjur af henni og fjölskyldu hennar undanfarna mánuði en var samt engan veginn undirbúin að þurfa að kveðja. Núna eftir að fá þessar ömurlegu fréttir hef ég eðlilega verið dofin og finn að orkan eru lítil miðað við venjulega. Þetta er dæmigert þegar við verðum fyrir áfalli hvort sem það er ástvinamissir, skilnaður, veikindi aðstandenda ofl. Það er auðvitað persónubundið hvað virkar fyrir hvern og einn. Sumum þykir best að fá útrás og keyra sig út, meðan öðrum hentar betur að hvíla sig, gera létta æfingu, jóga eða ganga í náttúrunni. Persónulega finnst mér ekki þjóna tilgangi að taka erfiða æfingu við svona aðstæður og finn að það gengur of nærri ónæmiskerfinu. Ég hef því skorið áætlunina mína mikið niður og mun spila hlutina alveg eftir eyranu næstu daga. Ég nýt þess að rifja upp skemmtilegar minningar um vinkonu mína og sæki orku frá jákvæðu fólki í kringum mig.
Það er gaman að segja frá því að nýr Íslendingur bættist í hóp Járnkarla og kvenna á Íslandi í gær, en Ketill Helgason lauk keppni í Ironman China í gær. Tími Ketils í sundinu var 1:34:04 klst, svo hjólaði hann á 6:32:24 klst og hljóp svo maraþonið í lokin á 6:50:15 klst. Heildartími hans var því 15:12:59 klst. Til hamingju Ketill með þetta frækna afrek.
Einnig fór fram Lífstílskeppni hér heima þar sem keppt er í 10 mismunandi íþróttagreinum. Keppnin tókst einkar vel og skemmti fólk sér víst konunglega. Sjá úrslit og myndir á http://threkmot.is/