Karen Axelsdóttir - haus
16. mars 2010

Tækla minniháttar hlaupameiðsli

aqua_jogNánast allir íþróttamenn lenda í því reglulega að fá minniháttar meiðsli t.d togna, fá slit í vöðva, illt í hásin eða beinhimnubólgu. Þetta er hluti af leiknum og eitthvað sem þýðir ekki að svekkja sig á. Vissulega eru meiðsli oft afleiðing of mikils álags og líkaminn þarf þá aukna hvíld en fyrir keppnisfólk gilda oftast aðrar reglur þegar kemur að minniháttar meiðslum.

Ef þú ert svo óheppin að vera ekki stjörnuleikmaður í fótbolta þar sem lið nuddara og sjúkraþjálfara sér um endurhæfingu fyrir þig þá þarftu að fara að bretta upp ermarnar. Ef markmiðið er að missa sem minnst úr og nánast halda þínu striki þá er það hægt í flestum tilfellum. Lykillinn er að lágmarka eða forðast það álag sem olli meiðslunum en finna leiðir til að styrkja svæðið og vöðva í kring. Það að halda að nú geti maður bara skroppið 1-2 í viku í sjúkraþjálfun og farið svo að "chilla" er mikill miskilningur. Þú þarft að sinna heimavinnunni ef þú ætlar ekki að vera margar vikur að byggja upp fyrrum þol og styrk.

Leitaðu fagfólks strax og fáðu ítarlegar æfingar og ráð sem þú getur fylgt eftir. Fáðu grænt ljós á hvaða hreyfingar þú mátt gera og hvort þú getir gert eitthvað annað t.d hjólað eða hlaupið í sundlaug með belti í stað þess að hlaupa , en slíkt felur ekki í sér að bera uppi eigin þyngd og reynir bæði á þol og marga sams konar vöðva.

Ef þú æfir með öðrum skalltu mæta sem oftast og sinna endurhæfingunni í umhverfi með þeim ef það er hægt en það er mjög auðvellt að einangrast og missa móðinn ef maður er mikið einn í sínu horni. Ég t.d fór oftast á hlaupavöllinn með liðinu, tók bara krakkana með mér og gerði þar kálfalyftur, teygjur ofl. æfingar á hliðarlínunni.

Hér spilar hlutverk þjálfara stórt í að liðsinna, hvetja og sýna viðkomandi stuðning og þá sértaklega þegar um unglinga er að ræða. Enn og aftur spilar jákvætt viðhorf stórt hlutverk. Líttu á þetta sem tækifæri til að læra meira og hvernig þú getir fyrirbyggt sams konar meiðsli í framtíðinni.